149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:07]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Það er nú svo að maður er kannski kominn á þann stað að fara að taka til í ræðum skýringar, orðskýringar við reglugerðir, til að varpa ljósi á mál vegna þess að hér er hreinlega ekkert hlustað á það sem við segjum og reynum að halda á lofti í málinu á því sem kallað er í almennri orðræðu á mannamáli, þannig að þeir Íslendingar sem horfa á útsendingu frá þessum fundi skilji vel. Það er bara svoleiðis. En það er kannski alveg eins gott að lesa þetta hreinlega upp staf fyrir staf vegna þess að þetta er mjög skýrt.

Munurinn á stjórnmálunum í Evrópu og á Íslandi er þó alla vega sá að það er enginn feluleikur í þessum reglugerðum, ekki nokkur. Þetta er algerlega kýrskýrt. Og það þarf, eins og stundum hefur verið sagt, einbeittan brotavilja til að lesa svona texta og ætla að fá út úr því að hér sé ekki ætlunin að leggja sæstreng. Það er sérstaklega tiltekið í fjórða orkupakka að það eigi að tengja Ísland. Í 33. gr. tilskipunar nr. 72/2009 er alveg farið yfir þetta. Það stendur ekki sæstrengur ef fólk hefur verið að lesa hana með „control/find“. En það er algerlega skýrt af orðalaginu að það verður hægt að tengja. Þeim sem eru skilgreindir sem óbundnir viðskiptavinir verður ekki synjað um slíkt.