149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:38]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, það er svo að það á að fjölga starfsfólki og auka fjárframlög frá íslenska ríkinu. Spurning hv. þingmanns snýst um hvort eftirlitsþátturinn sem þessu eftirlitsvaldi er ætlað að sinna sé nauðsynlegur. Svarið er tvíþætt. Innan Evrópusambandsins er án vafa nauðsynlegt að hafa öflugar eftirlitsstofnanir þar sem verið er að hafa eftirlit með þessari samfellu og einsleitni sem er hluti af markmiðum og stefnu sambandsins. Það skil ég mætavel. En markmið og stefna Evrópusambandsins er bara önnur og ólík því sem við höfum sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Ég skil þetta og meginlandshugmyndafræðina og það sem Evrópusambandið gerir og hef lýst því yfir í ræðum að ég er í raun og veru að mörgu leyti mjög hrifinn af því hvernig Evrópusambandið vinnur sín lög og reglugerðir og innleiðingar hvað varðar Evrópusambandið. Þar er samfella og samhljómur í því sem verið er að gera til að takast á við þann vanda sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir. En hér er verið að stofna ríki í ríkinu. Við erum sjálfstæð og fullvalda þjóð og ættum ekki að vera með á okkar framfæri eftirlitsvald sem við fjármögnum en lýtur hins vegar ekki boðvaldi framkvæmdarvaldsins. Það er mín einlæga trú og skoðun. Ég geri athugasemdir við það, hv. þingmaður.