149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:04]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Það er akkúrat málið, upp á enska tungu heitir þetta: „The devil is in the details“, eða djöfullinn leynist í smáatriðunum. En ég vil samt sem áður horfa svo á, eins og ég hef komið inn á hér, að raunverulega sé þetta enginn feluleikur en þetta krefur okkur um að lesa gögnin og lesa þau vandlega. Við sem sitjum hér inni nú höfum ekki ósjaldan verið vændir um að við ættum að lesa gögnin og fengið frammíköll hér úr sal um það hvort þingmenn Miðflokksins séu læsir yfir höfuð. Ég held að við séum að hrekja þá staðreynd.

Ég vil einmitt benda á það sem komið er inn á hér, að Orkustofnun, og lögin sem nú eru í meðförum þingsins og á nefndasviði, eru þess eðlis að þau snúast ekki um að gera Orkustofnun að einhverju fyrir Ísland eða breyta hlutverki eða eðli Orkustofnunar fyrir Ísland heldur akkúrat að breyta hlutverki Orkustofnunar fyrir Evrópusambandið. Við Íslendingar megum borga og eigum að borga og fjármagna og manna og tryggja að þetta batterí, ef ég má komast svo að orði, verði algerlega sjálfstætt frá framkvæmdarvaldinu, fái heimild til sektarálagningar sem yfirleitt er á hendi dómsvaldsins í hinni hefðbundnu þrískiptingu valdsins, en þjóni Evrópusambandinu. Það er grafalvarlegt mál að stíga svona skref. Og að halda því fram hér að þetta sé algjört núllmál, það er bara bratt, frú forseti. Ég held að það sé mikið undir að þetta sé gaumgæft (Forseti hringir.) og rætt betur.

Ég hvet hæstv. forseta til að hlutast til um það að þetta mál verði tekið til gagngerrar endurskoðunar.