149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt í þessu máli í viðbót sem truflar verulega, það er að á nákvæmlega sama hátt og sérfræðinga greinir á um áhrif á stjórnarskrá af því máli sem við erum að fást við hér, þá greinir sérfræðinga einnig á um það hversu víðtækt vald ACER fái á Íslandi. Menn segja: Ja, þetta er bara eins og Orkustofnun og eitthvað svona og þetta sé allt í lagi. Menn taka svona stór atriði og segja: Ja, þetta er nú bara svona. Og menn segja: Það eru nú fyrirvarar hér — sem eru ekki til. Þetta er bara Orkustofnun.

Nei, þetta er sjálfstæð stofnun sem svarar ekki neinum nema Evrópusambandinu.

Menn greinir sem sagt á um það hvernig þetta kemur út. Þetta hefur ekki verið skýrt, ekki frekar en þeir fyrirvarar sem eru nú orðnir að hjómi, og voru það alltaf, eru núna gufaðir upp í reyk. Það kemur enginn og útskýrir fyrir okkur, af þeim sem fylgja þessu máli, hvernig þetta er í lagi. Því er ekki svarað. Nákvæmlega sama gerist með þetta. Hvaða áhrif hefur þessi stofnun, þessi yfirþjóðlega stofnun? Það kemur enginn til að skýra það út, ekki nokkur. Þegar það er ekki gert, þegar ekkert er skýrt út þegar menn koma hér og segja: Heyrðu, þetta er bara kolrangt, þetta er ekki svona, þetta er hinsegin. Það kemur enginn og gerir það, það kemur enginn og skýrir þetta út. Það veldur óþægindum og áhyggjum að menn skuli ekki vera annaðhvort færir um það eða það sem enn verra er, ekki kæra sig um það, sem er náttúrlega enn verra.