149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ræðuna, hún fór eins og oft vill verða hjá honum víða og hann kom inn á margt. Hann fór yfir afstöðu og sjónarmið nokkurra fræðimanna varðandi fyrirvarana og leiðina sem snýr að því að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Eru til skýrslur eða úttektir eða afstaða einhverra fræðimanna sem máli ná í þessari umræðu sem vísa í þá áttina að menn eigi alls ekki að nýta sér þann kost að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar? Þeir eru óteljandi stjórnmálamennirnir sem hafa talað á þeim nótum, en eru þeir ekki færri fræðimennirnir sem hafa sagt fullum fetum að sú leið sé ekki fær? Sú mynd sem pólitíkusar og stuðningsmenn innleiðingarinnar hafa reynt að draga upp er að 102. gr. sé öryggishemill sem sé bara alveg óhugsandi að taka í eða nýta. Hv. þingmaður kom með þá ágætu samlíkingu fyrr í umræðunni að þetta væri eins og það kviknaði í húsi og menn notuðu ekki slökkvitæki af því að það hefði aldrei verið notað áður.

Spurningin er þessi, hv. þingmaður: Er einhver fræðimaður á sviði lögfræðinnar sem hefur haldið því fram að sú leið að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar, með vísan í 102. gr. EES-samningsins, sé ekki fær?