149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:40]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, þessi aukni áhugi fjárfesta á að fjárfesta í endurnýjanlegri orku er, að ég tel, skiljanlegur þó að við fyrstu sýn megi kannski líta út fyrir að svo sé trauðla að sjá.

Af hverju á Íslandi þar sem þegar er umframorka og raforkuverð með því lægsta sem þekkist á Evrópumarkaði? Auðvitað sér það hvert mannsbarn að framtíðin er að selja orku héðan, þar sem skilyrði til að framleiða orkuna eru mun betri en kannski niður í Evrópu með tilkomu sæstrengs. Það segir sig alveg sjálft.

Í þeim viðauka sem ég er hér með þýddan og farið er yfir þetta snýst málið náttúrlega um það að Evrópusambandið er með áætlanir í loftslagsmálum og hreinni orku sem er seld á hærra verði á forsendum þess að minnka kolefnissporið. Þar eru kannski ekki alltaf bestu skilyrðin til að framleiða þessa orku, eins og segir hér, þó að sólin skíni ekki og vindurinn blási ekki þarf samt sem áður að framleiða næga orku til að anna eftirspurn. Svo er talað um orkugeymslur, fjárfestingar í orkugeymslum, eða „energy storage“, eins og það heitir, með leyfi forseta, á ensku.

Þetta eru eðlileg vinnubrögð í ljósi þess að markmiðin eru sett áratugi fram í tímann. Til að ná þeim markmiðum þarf að huga vel að málum nú.