149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:02]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki þessa Viðreisnarhugsun, sem hv. þingmaður lýsir svo réttilega. En enn síður skil ég að stjórnarflokkarnir þrír skuli í þessu máli hafa tileinkað sér 100% Viðreisnarhugsunina eða a.m.k. notað Viðreisnarrökin til að reyna að sannfæra okkur um innleiðingu þessa orkupakka. Dæmið sem hv. þingmaður tekur af Viðreisnarhugsuninni er mjög lýsandi. Dettur einhverjum í hug, í ljósi reynslunnar, að skynsamlegt væri fyrir þróun samfélagsins að ríkið seldi einfaldlega rafmagn til útlanda og hefði af því tekjur og færi svo að útdeila peningunum eftir einhverjum óskilgreindum leiðum? Svo bætist auðvitað við að enginn trúir því að ríkið myndi útdeila þessum peningum aftur til þeirra sem myndu glata þeim við innleiðingu þessarar Viðreisnarhugsunar, sem ég vona að hæstv. forseti hafi eins miklar áhyggjur af og ég.