149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir hugleiðingar hans og spurningu. Ég orðaði það sem svo að ríkisstjórnin væri ekki að hlusta á neinn og nefndi nokkur dæmi um á hverja þeir hlustuðu ekki. En ég gleymdi auðvitað því að þeir hlusta ekki á fylgismenn sinna eigin flokka. Þeir hlusta ekki heldur á viðvörunarorð lögfræðilegra ráðgjafa ríkisstjórnarinnar, þeir hlusta ekki á þá heldur — viðvörunarorðin. Þeir hlusta ekki heldur á ályktanir sinna eigin flokka. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðisflokks Íslands, ályktaði bókstaflega gegn innleiðingu þriðju orkutilskipunar Evrópusambandsins.

Flokksapparat Framsóknarflokksins hafði einnig ályktað gegn innleiðingu orkutilskipunarinnar. Þeir hlusta ekki á sveitarfélögin. Þeir hlusta ekki á einstaklingana. Þeir hlusta ekki á kjósendur. Þeir hlusta ekki á meiri hluta þjóðarinnar. Og þeir hlustað alls ekki á Miðflokkinn.

Já, hv. þingmaður nefndi sveitarfélögin. Umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þar var einróma samþykkt með níu atkvæðum gegn engu að sveitarstjórnin vildi að ákvarðanir í orkumálum yrðu í höndum Íslendinga. Með leyfi forseta, segir í umsögn þeirra:

„Mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga er því ótvírætt. Skal í því sambandi minnt á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér.“