149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér í ræðu minni að koma áfram inn á sjónarmið sem fyrrverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, setti fram í Morgunblaðinu 27. apríl sl. þar sem hann setur fram sjónarmið sín hvað þriðja orkupakkann varðar, undir millifyrirsögn: Takmarkað vald en talsverður vilji. Með leyfi forseta, segir Tómas Ingi:

„Þó kemur það hvergi fram í álitsgerðinni“ — er þá vísað í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts — „að íslensk stjórnvöld hafi vald til að setja sig á móti því að komið verði á tengingu um sæstreng við raforkumarkað ESB/EES. Um slíkt svigrúm fjalla engar samþykktar undanþágur. Þar er einungis gefið í skyn að þriðji orkupakkinn leggi ekki þá skyldu á íslensk stjórnvöld að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri. Það er hins vegar andi allrar orkulöggjafar ESB að koma á fót sameiginlegum orkumarkaði aðildarlandanna og flytja orku yfir landamæri til að fullgera þann markað.

Þótt engin skylda hvíli á íslenskum stjórnvöldum að leggja sæstreng, þýðir það ekki að íslensk stjórnvöld geti hindrað lagningu sæstrengs þvert á tilgang orkutilskipana ESB/EES. Þetta mál er í raun skilið eftir óútkljáð af hálfu höfunda álitsgerðarinnar.“

Tómas Ingi Olrich heldur áfram, með leyfi forseta:

„Það er mikill barnaskapur að ímynda sér að íslensk stjórnvöld hafi fullt forræði á tengingu landsins við orkumarkað ESB/EES ef þess er hvergi getið í formlegum undanþágum og einungis vitnað í pólitískar yfirlýsingar utanríkisráðherra Íslands og framkvæmdastjóra orkumála innan framkvæmdastjórnar ESB. Yfirlýsingar þessara embættismanna eru ekki á nokkurn hátt lagalega skuldbindandi.“

Hér er komið að einu því kjarnaatriði sem við höfum verið að reyna að benda á í umræðunni síðustu daga, að allir þeir fyrirvarar sem vísað er til og eiga að tryggja að málið sé sett fram með forsvaranlegum hætti, eru haldlitlir eða haldlausir. Og stór hluti er fyrirvari sem snýr að lagningu sæstrengs, hinn meinti fyrirvari um það, að þær sviðsmyndir vanti alveg, sem er lágmark að stjórnvöld stilli upp fyrir okkur varðandi það hvað tekur við og hver staðan verður að sæstreng lögðum.

Ég ætla að leyfa mér að halda áfram að vitna í Tómas Inga Olrich, með leyfi forseta:

„Ekki er rétt að útiloka þann möguleika að innan ríkisstjórnar Íslands séu þegar að verða til áætlanir um að tengjast orkumarkaði ESB/EES með sæstreng. Landsvirkjun hefur á því verkefni mikinn áhuga og telur sig geta hagnast vel á verkefninu. Stofnunin telur að raforkuverð muni hækka, en er ekki eins bjartsýn á þá hækkun og Þorsteinn Víglundsson.“ — Er þar vísað til hv. þm. Viðreisnar, Þorsteins Víglundssonar, sem hefur sett fram sjónarmið sín varðandi þróun verðlagningar. — „Eru áætlanir Landsvirkjunar gerðar í tómarúmi eða styðjast þær við velvilja ríkisstjórnarinnar?“ — Spyr Tómas Ingi.

Til að loka þessum hluta sjónarmiða Tómasar Inga þá heldur hann áfram, með leyfi forseta:

„Þegar litið er til útlistana Landsvirkjunar um þann hag sem Íslendingar geta haft af sæstrengnum, eins og stofnunin hugsar sér hann, blasir við að þar eru menn komnir fram úr sjálfum sér. Skiptir þá litlu hvort litið er á röksemdafærslu stofnunarinnar frá hagfræðisjónarmiði eða umhverfissjónarmiði — að ekki sé minnst á hagsmuni íslenskrar atvinnustarfsemi. Spurningin sem vaknar er hvort Landsvirkjun er komin fram úr ríkisstjórninni eða hvort hún á samleið með ráðherrunum.“

Þetta er annað atriði sem í sjálfu sér hefur ekkert fengist rætt við þessa umræðu að öðru leyti en að því hefur verið svarað til að það verði ekki með breytingu á raforkulögum sem áskilur samþykki Alþingis fyrir lagningu sæstrengs, heldur eingöngu verið vísað í það að fyrir liggi sú afstaða stjórnvalda að Alþingis skuli koma að málinu.

Þetta eru skynsamleg sjónarmið sem Tómas Ingi Olrich setur fram í greininni. Það vekur auðvitað furðu að fyrirsvarsmenn þingflokks Sjálfstæðisflokksins geri svo lítið með þessi varfærnislegu sjónarmið sem raunin er.