149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eftir 11 mínútur verða 18 klukkustundir síðan þessi fundur var settur. Ég geri ráð fyrir því að innan skamms förum við að nálgast eitthvert nýtt met í fundahaldi á þinginu. Þó að það sé freistandi og skemmtilegt að slá met er ég ekki viss um að þetta met sé okkur endilega til sóma eða framdráttar. Því spyr ég hæstv. forseta hversu lengi hann hyggist halda fundi áfram. Það er víst að umræður ganga vel og þær eru upplýsandi, athyglisverðar og skemmtilegar. Og fyrir okkur sem stöndum í umræðunni er þetta náttúrlega mjög gefandi og skemmtilegt. En störf Alþingis eiga ekki að snúast um skemmtigildi fyrir einstaka þingmenn, þannig að ég verð að spyrja hæstv. forseta hversu lengi hann hyggist halda (Forseti hringir.) þessum fundi áfram og hvort við megum eiga von á því að halda lengi áfram inn í morguninn.