149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Því hefur verið haldið mjög á lofti af þeim sem bera þetta mál fram að þeir sem mælt hafa í mót þingsályktunartillögunni á efnislegan, yfirvegaðan hátt undanfarna daga séu hér í klukkutíma- og sólarhringslöngu samtali við sjálfa sig. En ekkert gæti verið fjær lagi vegna þess að á útsendingar frá Alþingi horfa að staðaldri 6.000–8.000 manns. Ég hef það fyrir satt að núna undanfarna daga og nætur og um síðustu helgi hafi þeir verið allmiklu fleiri.

Þeir sem hér malda í móinn út af þessu máli eru ekki að tala hver við annan, þeir eru að tala við ykkur. Þeir eru að tala við fólkið í landinu. Þeir eru að tala við almenning sem hefur miklar áhyggjur af þessu máli og sem er á móti þessu máli.

Ég veit ekki alveg hvað á að kalla það, herra forseti, þegar þeir sem eru meðmæltir þessu máli halda því til streitu, þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir allar nýjar upplýsingar sem koma fram, þrátt fyrir að meiri hluti landsmanna sé á móti þessu máli, þrátt fyrir að nú í haust verði væntanlega tekið fyrir mál í Noregi fyrir stjórnlagadómstóli sem varðar einmitt upptöku þriðja orkupakkans þar í landi.

Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann hvort það atriði að þann 23. september nk. verður tekið fyrir mál í stjórnlagadómstóli í Noregi er varðar innleiðingu þriðja orkupakkans þar sé ekki full ástæða til að staldra við og sjá (Forseti hringir.) hvað setur og bíða með málið fram á haust.