149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:46]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir hans spurningu og vangaveltur. Hann spyr hver staða okkar væri í samningsbrotamáli, ef ég skildi hv. þingmann rétt, og vísaði til stöðu okkar varðandi ófrosna kjötið, innflutning á því. Þar héldum við einmitt að við værum varðir í bak og fyrir, það kæmi aldrei til að hér yrði gefin heimild til að flytja inn kjöt, algerlega frjálst, kjöt eða egg eða ógerilsneydd mjólk, og því var engin hætta á ferðum og við værum varðir gegn þessum sjúkdómum úti í Evrópu. En annað kom á daginn. Nú stöndum við frammi fyrir milljóna eða hundruð milljóna króna kröfum á þessu sviði þar sem menn hafa farið í mál við íslenska ríkið og ríkið hefur tapað því.

Nú er uppi mjög svipuð staða. Hér segjast menn vera að innleiða þriðju orkutilskipunina og til að róa fólk kynna þeir málið, að það yrði ekki gert nema með lagalegum fyrirvara þannig að alls öryggis sé gætt. Það róar menn og róaði greinilega þingmenn stjórnarflokkanna. En svo hafa þeir hafa það ekki á valdi sínu, herra forseti, að útskýra fyrir þjóðinni hvað felst í þessum lagalegu fyrirvörum.

Og hvað ef við berum þetta saman við skólana? Það er bara falleinkunn. Það er falleinkunn í kynningu á málinu. Við höfum leitað að þessum lagalegu fyrirvörum — ég segi ekki dauðaleit, en við höfum ítrekað leitað eftir þeim og spurt um þá. Þeir hafa það ekki á valdi sínu að svara.