149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einn af þeim sem eru, líkt og hv. þingmaður sem talaði áðan, hugsi yfir því að stjórnarflokkarnir þrír skuli hafa snúið svo gjörsamlega við blaðinu eftir að þeir tóku við völdum hér. Það er bæði að við höfum rekist á og lesið upp úr landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá því fyrir kosningar síðast og við höfum líka heyrt vitnisburð hv. þingmanna, t.d. hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem útskýra í mjög löngu máli af hverju við ættum ekki að samþykkja þriðja orkupakkann. Síðan líður eitt ár og menn snúa gjörsamlega við blaðinu.

Ég fór að horfa á það í rólegheitunum meðan hv. þingmaður talaði að samkvæmt síðustu skoðanakönnun má eiginlega segja að samfylkingarflokkarnir þrír, þ.e. Samfylkingin, Viðreisn og Píratar, séu með u.þ.b. 38% fylgi. Það skilur eftir 62%, en það er einmitt sú tala sem við höfum heyrt, og ekki bara heyrt heldur séð í skoðanakönnunum að er hópurinn sem er andvígur því að taka upp þennan pakka. Ég hafði satt að segja ekki hugmyndaflug í að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins myndi gefa flokknum sínum þennan pakka í afmælisgjöf. Ég var eiginlega að vona að eftir afmælisveisluna á laugardaginn hefðu menn hitt umbjóðendur sína og kannski vitkast aðeins og tekið upp betri háttu (Forseti hringir.) en það er ekki að sjá enn þá. Samt er ég feginn að sjá hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í salnum.

Mig langar aðeins til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sem ég var að segja áðan, að hlutföllin séu u.þ.b. svona, sé ekki rétt.