149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég hygg að þingmaðurinn hafi svarað þessu ágætlega. Ríkið þarf að draga úr hindrunum og ef flutningskerfið er ekki nægilega gott til að flytja t.d. 300 megavött sem framleiða á af norskum aðilum á Norðausturlandi má mögulega líta á það sem hindrun. Ég held að þetta sé bara dæmi um mál sem þarf að skýra betur áður en lengra er haldið.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann sem er góður greinandi, ég tek það ekki frá hv. þingmanni, hvort hann sé búinn að fá tækifæri til að velta fyrir sér áhrifum þess að innleiða orkupakka þrjú út frá því sem stendur nú þegar í orkupakka fjögur, því að hann liggur fyrir, eða hvort þingmaðurinn líti svo á að þetta sé bara hvort sitt boxið sem þurfi að klára áður en hitt kemur, óháð því hvaða framtíðarhagsmunir kunni að vera í orkupakka fjögur. Eins og þingmanninum er kunnugt um lauk Evrópusambandið þessu ferli 24. maí frekar en 25. maí og þetta var allt birt á vef Evrópusambandsins. Er ástæða til að velta þessu fyrir sér í þessu stóra samhengi?