149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Árið 2009, við myndun ríkisstjórnar, tók Vinstrihreyfingin – grænt framboð þátt í að sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu í einhverjum hrossakaupasamningi við Samfylkinguna. Þetta er því fráleitt í fyrsta sinn sem VG lætur prinsipp sín föl fyrir lítið.

Það var haldinn fundur úti á Austurvelli um daginn með fólki sem er ekki sama og mótmælir þessum orkupakka og þar kom fram í ræðu eins ágæts manns, fyrrverandi hv. þingmanns, Ögmundar Jónassonar, að hann treystir sér ekki til að kalla gamla flokkinn sinn lengur Vinstrihreyfinguna – grænt framboð heldur kallar hann í ræðunni Hreyfinguna – framboð. Hann sagði: Þessi flokkur er hvorki vinstri né grænn lengur.

Þetta segir sína sögu um kúvendingu flokksins í málinu.

Þetta varð kannski kveikjan að samrunakenningunni sem ég hef sett fram, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson minntist á áðan. Ég held því fram að það hafi orðið einhver bræðingur með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum og í staðinn fyrir að Vinstri græn taki að sér forystuhlutverk í markaðsvæðingu orkumála á Íslandi byggir nú Sjálfstæðisflokkurinn undir marxískt heilbrigðiskerfi á Íslandi og afneitar sjálfstæðum rekstri í þeirri grein.

Kannski eru þetta gamaldags hrossakaup, hv. þingmaður, það kann vel að vera. Kaup kaups.