149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:21]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar rædd hefur verið hugsanleg, og raunar ábyggileg, hætta þess að raforkuverð hækki og menn hafa vitnað í hvað gerðist þegar orkupakki eitt og tvö voru innleiddir, þá hækkaði verð, er líka verið að ræða að inni í þessum pakka er jöfnun raforkuverðs innan ríkja sambandsins. Þá hlýtur það að þurfa að jafnast hér á landi líka, miðað við þau ríki. Svo hefur maður heyrt á þeim sem eru með pakkanum að ekki sé hætta á hækkun raforkuverðs en það gæti orðið meiri eftirlitskostnaður og annar kostnaður sem fylgi breytingunni en ekki beint salan á rafmagninu. Mér finnst það svolítið hláleg skýring vegna þess að þegar við leggjum þá þætti saman hljótum við að fá hærri tölu, hækkun á eftirlitskostnaði, hækkun á þjónustugjöldum eða umsýslugjöldum hækkar reikninginn þegar búið er að leggja allar tölurnar saman.

Þarna er svolítið verið að slá ryki í augu þeirra sem spyrja þessara spurninga.

Já, raforkuverð til neytenda hér á landi mun örugglega hækka og ef sæstrengur kemur geri ég mér ekki grein fyrir því hvernig það mun þróast en það verður eitthvert samtryggingarverð, held ég að hljóti að verða.