149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann og þakka honum fyrir það mál sem hann flutti nú. Mér fannst einhvern veginn að hann væri að tala á þeim nótum sem við höfum stundum rætt í þessari umræðu um að Evrópusambandið virðist hafa tendens til að gefa mönnum inn meðul sín í teskeiðum þannig að innleidd er hver gerðin af annarri og hægt og hægt herðist hnúturinn að þeim sem taka gerðirnar inn. Mér datt í hug að biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir það hvað varðar fyrsta, annan og þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem okkur hafa í raun og veru verið gefnir inn í teskeiðum, að ég tel, og hvernig hann sér þær innleiðingar eins og þær hafa gengið fyrir sig á Íslandi undanfarin ár, allt frá árinu 2003, líklega, þegar sú fyrsta var innleidd til ársins 2008 þegar sú önnur var innleidd með miklum bravör og aldrei skyldi verið hafa og þangað til nú að við erum að berjast við það að þriðji orkupakkinn verði innleiddur á íslenskum forsendum með alvörufyrirvörum og sjáum síðan glitta í þann fjórða frá því í gær og þann fimmta við sjóndeildarhringinn. Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir fyrstu þrjá og (Forseti hringir.) hvernig okkur var gefið það inn í teskeiðum.