149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eitt furðuverkið sem við höfum verið að gaumgæfa hér meðan við höfum rætt þriðja orkupakkann er sú eindregna kúvending á skoðunum sem orðið hefur hjá þeim sem gagnrýndu þá pakka harðast, þ.e. þann fyrsta og annan, en gleypa við þeim þriðja eins og hann sé sendur frá himnum. Mér dettur í hug fljótt á litið að þar fari fremstur meðal jafningja hæstv. forseti þingsins sem flutti hverja öndvegisræðuna á fætur annarri og varaði mjög sterklega við fyrsta og öðrum orkupakkanum en er nú reiðubúinn að gerast forgöngumaður þess að sá þriðji verði tekinn upp og ekki bara tekinn upp heldur með bravör. Vinstri græn eru náttúrlega núna orðin leiðandi í markaðsvæðingu á orkuauðlindum þjóðarinnar.

Mig langar að biðja hv. þingmann að lýsa því hvað hann haldi að hafi gerst með Vinstri græna í þessu máli, sem mjög mörg voru á þingi þegar fyrsta og önnur tilskipunin var tekin inn og voru á móti því. Sumir hafa haldið sig að því, prinsippfastir menn eins og Ögmundur Jónasson, fyrrverandi hv. þingmaður, sem er mikið á móti því að við innleiðum þann þriðja, en aðrir hafa hins vegar stokkið á þennan vagn og vilja ólmir innleiða þriðja orkupakkann þótt þeir hafi verið á móti þeim fyrsta og öðrum. Sá fyrsti var auðvitað grunnurinn að þessu. Þeir voru kannski tiltölulega saklausir út af fyrir sig í samanburði við þennan. Eða hvað segir hv. þingmaður um það?