149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað getum við ekki treyst því, hv. þingmaður. Við höfum séð það að hlutirnir geta breyst hratt í stjórnmálum og fyrirvari sem þarna er settur er augljóslega fyrst og fremst fyrirvari fyrir ríkið sjálft, sem er einhvern veginn að setja fyrirvara á sjálft sig, það má orða það þannig, vegna þess að ef einkaaðilar vilja fara í þessa framkvæmd og fjármagna hana, flytja út orku, þá hefur komið fram hjá a.m.k. fjórum lögmönnum sem hafa skoðað málið, nú síðast hjá héraðsdómaranum Arnari Þór Jónssyni, að það stenst engan veginn að banna slíkt vegna fjórfrelsisins. Stefán Már og Friðrik Árni benda á að ef Orkustofnun myndi standa í vegi fyrir slíku myndi það mjög líklega kalla á málshöfðun og það yrði mjög erfitt fyrir Ísland að standast slíkt.

Síðan höfum við nú í kvöld verið að benda á neitun framkvæmdastjórnarinnar á undanþágu Norðmanna um að undanskilja sæstrengi til olíuborpalla sinna frá þessum reglum. Svarið sem Norðmenn fengu var að undir þessar reglur féllu ekki bara ákvarðanir eða það sem gerðist á landi, heldur líka efnahagslögsagan í heild og landgrunnið. Það var það sem framkvæmdastjórnin sagði við Norðmenn: Þið fáið ekki undanþágu vegna þess að þetta gildir líka á landgrunninu og efnahagslögsögunni, sem þýðir það að ekki er hægt að bera það fyrir sig þegar og ef íslenska ríkið vill standa í vegi fyrir því að hér verði lagður sæstrengur. Þá er búið að kveða upp úr um það að reglurnar gilda á landgrunninu og einnig í efnahagslögsögunni.