149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í umsögn Samtaka iðnaðarins segir m.a., með leyfi forseta:

„Að gefnu tilefni benda SI á að til umfjöllunar á vettvangi ESB er nú þegar fjórði orkupakkinn, þ.e. svokallaður „vetrarpakki“, þar sem liggur undir enn víðtækara regluverk en samkvæmt fyrstu orkupökkunum …“

Þetta skrifa Samtök iðnaðarins væntanlega vegna þess að þau hafa fengið einhverja kynningu á orkupakka fjögur. Við alþingismenn höfum ekki fengið þá kynningu. Við vitum að þetta er tilbúið. Við vitum að hann er beint framhald af fyrri orkupökkum. Við vitum að ákveðnar greinar á að uppfæra, eiga að breytast, og það bætast reyndar við nýjar greinar. Við vitum líka að hlutverk ACER stofnunar mun breytast og þess vegna er maður svolítið hissa á því að þingmenn stjórnarflokkanna og fylgjendur þessa máls skuli ekki vilja staldra við og í það minnsta bera saman breytingarnar sem verða milli þessara orkupakka.

Hvað er það sem breytist? Það er ekki alltaf þannig að við séum í þessari aðstöðu, virðulegur forseti, að hafa í rauninni framtíðina fyrir framan okkur, þ.e. geta séð hana. Hún er vitanlega alltaf fyrir framan okkur af því að við erum ekki komin þangað, en við getum séð hvað er í henni í þessu tilfelli. Þetta er ekki kristalskúla, við erum ekki að lesa í bolla eða spá í spil. Það er búið að samþykkja það sem við munum þurfa að taka upp á næstu mánuðum eða árum, það fer eftir því hversu hratt það mun ganga. Og hvers vegna þá ekki að staldra við og bera það saman og líta á heildina og breytingarnar sem þar verða?