149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir þetta andsvar. Varðandi þá myndlíkingu sem ég notaði í sambandi við fiskvinnslu og raforku er jú margoft talað um að fullvinnsla á fiski sé okkur nauðsynleg í því skyni að auka virðisaukann á því að flytja fiskinn út unninn, því að hann er jú miklu verðmætari þannig. Það hefur gengið á ýmsu í þeirri umræðu.

Sjálfur hef ég starfað lengi við fiskveiðar og þurft að eiga við alls konar mál í því sambandi. Þar á meðal hef ég fundið það undanfarin ár, sérstaklega núna hin síðari ár í sambandi við samskiptin við lánastofnanir, að af því að útgerð mín er ekki með fiskvinnslu hefur hún ekki eins mikið aðgengi að fjármagni í lánastofnunum því að virðisaukinn felst ekki í því að veiða fiskinn, heldur í því að fullvinna hann og flytja hann þannig út. Ég fæ bara það svar. Ég gæti kannski kríað út lán, en ég fengi ekki eins góða vexti og þeir sem eru í fiskvinnslu. Þá er ég að tala um í sambandi við kvótakaup og annað slíkt.

En í sambandi við spurningu þingmannsins um raforkuverð, og hann nefndi iðnaðarstarfsemi, er það einboðið að það eru ekki mikil landamæri í iðn- og tækninámi (Forseti hringir.) og slík fyrirtæki gætu auðveldlega flutt sig úr landi ef raforkuverð myndi hækka.