149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Hv. þingmaður fjallaði réttilega í ræðu sinni um jarðvarmavirkjanirnar og kannski hefði andsvarið átt að miða meira við innihald ræðunnar. Það er því freistandi að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi vitneskju um eða geti svarað því hversu mikið menn áætla að sé eftir af virkjanlegum jarðvarma á Íslandi og þá hvort ekki sé freistandi fyrir erlenda sem innlenda aðila, þess vegna einkaaðila, að ráðast í slíkar virkjanir til útflutnings á orku.

Jarðvarminn og þær virkjanir sem hv. þingmaður taldi upp eru eins og aðrir orkugjafar, eða orkuframleiðendur, undir sama regluverkinu. Þar af leiðandi mun Orkustofnun fjalla um verðlagningu eða umsýsluna á þessum orkugeira, ef þessar breytingar verða, í einhvers konar umboði ESA og ACER.

En það er kannski aukaatriði í ljósi ræðunnar sem hv. þingmaður flutti. Ég velti því fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi yfirsýn yfir það, einnig miðað við það sem ég spurði hann um áður varðandi mögulegar frekari jarðvarmavirkjanir og hversu mikið hægt sé að virkja. Þekkir þingmaðurinn til þess, t.d. samanborið við vindorku þegar kemur að kostnaði á hverja megavattstund? Hefur þingmaðurinn einhverja vitneskju um hvort kostnaður er sambærilegur? Þá er ég að hugsa út frá því hvað er freistandi (Forseti hringir.) fyrir einkaaðila að fara út í.