149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurningu hans. En ég verð að hryggja hv. þingmann að ég hef ekki kannað hver áhrif djúpborana eru frá sjónarhóli umhverfis. En ég tók fram í ræðu minni að þetta væri verðugt rannsóknarefni að kanna það og koma með það í þessa umfjöllun og á fullt erindi. Ef í ljós kemur að þarna sé um auðuga orkuuppsprettu að ræða á það fullt erindi í þessa umræðu, þ.e. rannsóknir á djúpborunum og hvað menn halda að unnt sé að ná mikilli orku með því móti, en jafnframt að kanna og rannsaka hver umhverfisáhrifin kynnu að geta orðið og hugsanleg skaðleg áhrif á svæðum þar sem jarðeldahætta er, eins og á Reykjanesi. Það er sérstakt rannsóknarefni.

Það er líka fleira en djúpboranir, jarðvarmi og fallvötnin. Vindorkan er líka eitthvað sem er að mestu óbeisluð hér á landi, sem oft hefur verið rætt um. En það er fleira. Sjávarfallaorka er einnig umhverfisvæn orkuuppspretta og víða hér á landi er örugglega hægt að virkja sjávarfallaorku, eins og t.d. í Breiðafirði eða á öðrum strandsvæðum sem gefa auðveldlega möguleika á því að virkja hana, eins og í fjörðum víða um land. En ekki síður og kannski enn þá umhverfisvænni er sú orka sem ég hef nefnt, ölduorka, þ.e. að virkja kraft öldunnar.