149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisverð nálgun og ég get tekið undir að það lítur út fyrir að menn hafi átt að gera þetta samkvæmt skipun frá einhverjum. En það er ekki lýsing á þeim Sjálfstæðisflokki sem maður þekkir, sem er í eðli sínu varkár, ögn íhaldssamur, þó framsýnn, sem gengur ekki á rétt annarra og tekur ákvarðanir að lokinni nákvæmri athugun. En því er ekki að heilsa hér og því verður maður að spyrja af því að hér hefur hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur brugðið fyrir í hliðarsal öðru hvoru meðan á þessari umræðu hefur staðið. Hún er formaður utanríkismálanefndar en hún hefur ekki fengist til að taka þátt í umræðum og hefur gefið það út opinberlega að öllum spurningum hafi verið svarað um þetta mál.

Nú verð ég að segja, herra forseti: Ég hefði viljað heyra svar hv. þingmanns um það hvort þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafi verið kunnugt um öll þau varnaðarorð sem er að finna í umsögn Eyjólfs Ármannssonar lögmanns og fleiri umsögnum áður en þingflokkurinn tók ákvörðun um að þetta mál skyldi lagt fram í þeirri mynd sem það er nú.

Kannski getur hæstv. forseti upplýst okkur um hvort svo sé, hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi virkilega tekið þessa ákvörðun eftir að hafa kynnt sér þetta mál, þessa umsókn, og fleiri ef svo er, (Forseti hringir.) vegna þess að ef sú er raunin er Sjálfstæðisflokkurinn ekki sami flokkurinn og hann var, alla vega þegar ég var upp á mitt besta.