149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hafi verið Lao Tse sem sagði, með leyfi forseta: Margra mílna ferð hefst á einu skrefi.

Kannski er það bara það sem við erum að horfa upp á hér, að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að samsama sig svo Evrópuöflunum — nú kemur samrunakenningin aftur — að ekki verður aftur snúið.

Nú er ég náttúrlega ekki þessi kremlólóg sem Þorsteinn Pálsson, nafni minn, er og þekki ekki myrkviði Sjálfstæðisflokksins eins og hann. Hins vegar er mjög áhugavert það sem hv. þingmaður hefur velt hér upp, að við verðum að skilja hvers vegna þessir þrír flokkar sem mynda ríkisstjórnina hafa allir snúist 180° í viðhorfi sínu til orkupakkans. Við verðum að skilja hvað það er sem fær þá alla til að svíkja kosningaloforð sín frá því í síðustu kosningum og ganga á bak orða sinna gagnvart kjósendum sínum með þessum hætti. Við verðum að skilja hvað liggur að baki. Hvað er mikilvægara þessum þremur flokkum en að vera heiðvirðir, að standa við orð sín? Hvað er það sem er æðra því? Eru það hagsmunir? Er það gerbreytt viðhorf? Það blasir náttúrlega við að þetta ágæta fólk veit eitthvað sem við vitum ekki og vill ekki segja okkur það af því að við höfum spurt svo oft. Það liggur fyrir. Spurningin er bara hvað það er. Það hefur komið í ljós í smáskömmtum vegna þess að allar þær fréttir sem við höfum fengið núna á síðustu vikum áttu að berast okkur eftir að var búið að afgreiða þetta mál.

Mig langar aðeins (Forseti hringir.) til að fá hv. þingmann til að koma til baka með það. Er það ekki mergurinn málsins? (Forseti hringir.) Allt þetta sem nú liggur fyrir átti ekki að liggja fyrir meðan við fengumst við þetta.