149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Fyrst menn hafa tækifæri til að skyggnast inn í framtíðina, þ.e. að sjá hvað er í þessum fjórða orkupakka, en það mun taka einhverja mánuði, töluverðan tíma, að koma honum í framkvæmd, og menn hafa rúman tíma til að kynna sér innihaldið, er auðvitað sérkennilegt að vilja ekki nýta það tækifæri, vegna þess að við erum að tala um mjög stórt mál. Við erum að tala um orkumál þjóðarinnar. Við erum að tala um auðlindir þjóðarinnar og þá staðreynd að við erum hér að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins í smáskömmtum.

Það er svolítið skemmtilegt að hv. þingmaður skyldi taka þessa samlíkingu með bílinn eða aksturinn, nema í þessu tilviki höfum við svo mikla forgjöf. Ef við slökuðum nú aðeins á og kynntum okkur þennan fjórða orkupakka — við getum orðað þannig að ef við værum búnir að plana það að keyra hringinn í kringum landið eftir þrjá mánuði, gætum núna séð hvernig færðin væri, hvernig veðurspáin væri og slíkt, og átta okkur á því hvar vegaframkvæmdir væru, hverju við vildum sneiða fram hjá o.s.frv. — Við erum í þeirri stöðu í dag að ef stjórnarmeirihlutinn og þeir sem vilja keyra þetta mál í gegn kæra sig um að kynna sér hvað er í orkupakka fjögur, hver heildaráhrifin verða eftir innleiðingu á orkupakka þrjú og fjögur, hvað breytist milli þessara tveggja pakka, þá geta menn gert það núna.

Ég nefni þetta ekki síst í ljósi þess að a.m.k. annar þeirra ráðherra sem bera ábyrgð á þessu máli í þinginu hefur sagt að í sjálfu sér liggi ekkert á, og viðraði það meira að segja að fresta því til haustsins, a.m.k. annar þeirra, ef ekki báðir.