149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Manni fyndist í rauninni lágmark að fylgjendur þessa máls, sem líta svo á að það skipti þá engu máli hvernig orkupakki fjögur lítur út í framhaldi af orkupakka þrjú, kæmu og útskýrðu það fyrir okkur, í það minnsta svöruðu spurningunum hvers vegna svo er. Ef menn líta svo á að ekki séu tengsl á milli orkupakka þrjú og fjögur vil ég nefna sem dæmi að í yfirlitinu yfir orkupakka fjögur kemur fram að reglugerð 72/2009, sem við erum m.a. að fjalla um hér, muni taka breytingum í fjórða orkupakkanum. Ef það er ekki bein tenging veit ég hreinlega ekki hvað bein tenging er, ég verð að segja það. Það stendur og er sérstaklega tekið fram að sú gerð muni breytast, reyndar 714/2009 líka, nýja reglugerðin, en ný gerð kemur.

Maður veltir fyrir sér, herra forseti, hvað geri það að verkum að hv. þingmenn gangi fram með þessum hætti eða í rauninni þegi þetta af sér. Mér skilst að hæstv. forseti Alþingis sé með einhverjar yfirlýsingar í Fréttablaðinu í dag en þingræðið snýst ekki minna um það að menn tjái sig hér og lýsi skoðunum í staðinn fyrir að þegja.