149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:14]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Þetta er mjög áhugavert. Ég held að ég neyðist til að taka þetta betur fyrir í næstu ræðu minni um djúpborunarverkefnið. En ég vil upplýsa hv. þingmann að djúpborunum kunna að fylgja — og sérstaklega örvunaraðgerðum í framhaldi þar sem borað er mjög djúpt niður í jarðskorpuna, ég held að sú dýpsta hola sem við höfum borað sé rúmir 4.600 metrar.

En hv. þingmaður minntist á eldsumbrot. Það er hárrétt hjá honum að þegar fyrsta djúpborunarholan var boruð við Kröflu 2009 var farið niður á 2.100 metra, menn ætluðu að fara lengra, sem kallast kannski ekki djúpborunarhola í hefðbundnum skilningi þess orðs, en þá var komið niður á kviku. Ég held að það hafi ekki leitt til neinna eldsumbrota í það skiptið, en sú hola mældist við 450° hita, sem á þeim tíma var heimsmet, en ég veit ekki hvort það stendur enn. En þessar holur hafa stundum verið með þannig efnasamsetningu, þ.e. að vatnið eða gufan upp úr þeim hefur verið þannig samsett að ekki hefur reynst unnt að vinna úr því vegna þess að efnin eru mjög tærandi og slítandi fyrir allan búnað. En menn hafa svo sem hugsað sér ráð við því með því að dæla niður vatni og vinna svo úr nærliggjandi holum hita sem myndast við það ef berglögin eru nógu lek. Ef þau eru það ekki hafa menn hugsað sér að gera þau lek, þá væntanlega með einhvers konar sprengingum. Þetta hefur umtalsverð (Forseti hringir.) umhverfisáhrif og þess þá heldur þurfum við orkustefnu.