149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þetta síðara andsvar. Ég er kannski ekki góður spámaður en vegna reynslu minnar, hafandi fylgst með pólitík í allmörg ár og vera búinn að starfa í pólitík í einhvern tíma, þá veit ég að oft er sagt að stjórnmálamenn sem hafa reynslu reiði sig á gullfiskaminni kjósendanna þegar svona kemur upp á, líkt og ég vitnaði til í ræðu og hefur komið fram í fleiri ræðum, þess háttar breytingar eða U-beygja og er í málinu um þriðja orkupakkann. Það sem kemur fram í ályktunum þessara tveggja flokka er algjör viðsnúningur og þá gef ég mér það að þeir treysti á að þetta gullfiskaminni virkist þannig að þegar blásið verður til næstu kosninga verði allir búnir að gleyma því sem nú er að gerast.

Annað get ég ekki sagt í raun og vera, nema að ég vona að fólk gleymi þessu ekki. Ég tel að verið sé að brjóta blað í sögunni með því. Þessi uppákoma er fordæmalaus, að við séum að tala hér daga og nætur um þetta mál. Það er ekki út af engu sem við erum að gera það. Það er alveg á hreinu.