149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur sú kenning komið fram í umræðunni, og ekki bara kenning heldur jafnvel vissa, að margir þeir þingmenn sem voru á báðum áttum eða tregir til að ljá máls á því máli sem nú er til umræðu hafi eiginlega verið blekktir til fylgilags við málið með þessum svokölluðu fyrirvörum. Nú þegar það hefur opinberast í gegnum þá umræðu sem hér hefur farið fram að fyrirvararnir eru ekki túkalls virði get ég alveg ímyndað mér að margir þingmenn stjórnarflokkanna, t.d. Sjálfstæðisflokks, séu býsna svekktir með sjálfa sig, að hafa látið tilleiðast að styðja málið jafn vanbúið og það er. Það gæti verið skýring á því að menn séu ögn pirraðir út í sjálfa sig og láti það ganga yfir aðra. En þetta er bara kenning.

Málið er hins vegar að mínum dómi hafið yfir flokkapólitík þó að búið sé að búa til flokkapólitík úr málinu á þinginu af meiri hlutanum. Ég tel að málið hefði átt að afgreiðast og þurfi að afgreiðast í breiðri sátt, bæði innan þings og í sátt við þjóðina, en eins og málið stendur nú samkvæmt skoðanakönnunum er meiri hluti þjóðarinnar á móti því. Ég skil eiginlega ekki alveg stjórnvöld sem gera sér það að leik að fara gegn þjóðarvilja, jafnvel ítrekað, til að berja fram mál sem eru illa undirbúin, illa grunduð og hættuleg.