149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

dagskrárvald þingsins.

[10:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Það er forseti þingsins sem ræður dagskrá þingsins. Það hefur ítrekað komið fram af hálfu Miðflokksins að það sé honum laust í hendi að tekin séu fram fyrir mál sem, líkt og forseti sagði, varða þjóðarhag og eru fullbúin til þess að ræða. Það hefur margkomið fram en ekki verið þegið. Það er ekki á ábyrgð Miðflokksins eða þingmanna hans.

Dagskrárvaldið á Alþingi er ekki í höndum Miðflokksins eða annarra þingflokka á Alþingi, það er í höndum forseta þingsins og það er hann sem skipar dagskrána. Það er hann sem setur fund og ákveður fundartíma. Það er hann sem ákveður hvaða mál eru tekin til umfjöllunar og ég ítreka að komið hefur fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að Miðflokkurinn er fús til þess að taka önnur mál fram fyrir þetta mál sem nú hefur verið til umræðu í drykklanga stund.