149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

skipulögð glæpastarfsemi.

[09:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að vekja máls á þessari skýrslu. Ég tek undir með hv. þingmanni, að sjálfsögðu er mikilvægt að við förum vel yfir hana og tökum hana alvarlega. Ég er þó ekki sammála þeirri forsendu sem hv. þingmaður gefur sér, að hér sé talað fyrir daufum eyrum þegar við ræðum ógnir sem stafa af skipulagðri glæpastarfsemi. Það er ekki svo, hv. þingmaður, heldur skiptir einmitt máli að við nálgumst þetta mál á heildstæðan hátt. Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum á föstudaginn að fara sérstaklega yfir þessa nýjustu greiningu með fulltrúum forsætisráðuneytis sem formanni þjóðaröryggisráðs, dómsmálaráðuneyti sem auðvitað er lykilráðuneyta í þeim málaflokki, sem fer með málefni löggæslu, en einnig með fulltrúum frá heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, því að við þurfum líka að horfa á málin heildstætt, ekki bara út frá glæpastarfseminni sjálfri heldur líka afleiðingum hennar.

Tökum eitt dæmi, notkun ópíóíða sem við ræddum töluvert á þingi í fyrra. Við sjáum að það hefur dregið verulega úr ávísunum á ópíóíðalyf með samstilltu átaki sem heilbrigðisráðherra hefur leitt. Það skiptir máli þannig að við þurfum í raun og veru að nálgast þetta á miklu heildstæðari hátt og horfa á þetta út frá ólíkum nálgunum.

Þá vil ég geta þess líka að þau mál hafa verið á dagskrá þjóðaröryggisráðs, því að það skiptir auðvitað máli. Þar sitja fulltrúar Alþingis og þriggja ráðuneyta sem og lögreglunnar, Landhelgisgæslunnar og Landsbjargar. Það skiptir einnig máli að við ræðum þau mál á þeim vettvangi. En ég ítreka að við settum niður sérstakan vinnuhóp til að fara yfir þessa skýrslu og gera tillögur um umbætur og þær munu lúta að löggæslunni, eins og hv. þingmaður spyr um, en líka að öðrum þáttum á borð við heilbrigðis- og félagskerfinu.