149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[11:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við skulum vera að greiða atkvæði um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Eftir henni hefur lengi verið beðið eðli málsins samkvæmt þar sem þessi stefna á að standa af sér breytingar á þingi og í ríkisstjórninni er hún máluð breiðum strokum. Smáatriðin eru ekki teiknuð út enda er það aldrei hægt í stefnu til mjög margra ára.

Stefnan er þegar farin að virka. Ráðuneytið er þegar farið að vinna undir áætlunum sem getið er um í áttunda lið stefnunnar sem er mikið fagnaðarefni. Það nægir að nefna geðheilbrigðismál. Það nægir að nefna málefni aldraðra, það nægir að nefna málefni sjúkraflutninga og þannig mætti lengi telja. Þetta er mikið fagnaðarefni og ég mun glaður greiða þessari stefnu atkvæði.