149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef talað um árin frá 2013–2016 sem ár hinna glötuðu tækifæra, árin þegar við vorum á leiðinni upp en það var enn slaki í hagkerfinu og það voru bæði möguleikar og kjöraðstæður til að fara í fjárfestingar og innviðauppbyggingu á þessum árum. Það var kannski erfiðara þegar við vorum komin alveg upp í sveifluna og fyrirséð að við værum á niðurleið. Þarna eru glötuð tækifæri og þessi ár koma ekki aftur. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við hagstjórnina (Gripið fram í.) öll þessi ár. Sá ágæti flokkur og núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem sat annaðhvort sem forsætisráðherra eða fjármálaráðherra á þessum árum, lítur ekki á sveiflujöfnun sem valkost. Það er miður og fyrir það mun almenningur þurfa að gjalda. Kostnaður af slakri hagstjórn skellur alltaf á almenningi fyrr eða síðar.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur uppnefnt þá formalista sem gagnrýnt hafa hringlandaháttinn við hagstjórnina og þegar menn efast um að það sé í rauninni lagagrundvöllur fyrir því að breyta stefnunni núna. Það klingja einhverjar bjöllur þegar það er sagt vegna þess að þegar við þurftum mest á ferlum og skýrum leikreglum að halda á árunum fyrir hrun var einmitt gert lítið úr þeim sem vildu halda sig við leikreglurnar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann kannist ekki við þetta stef.