149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af hverju er þetta mikilvægt? Við erum að fjalla um efnahagsáfall, þjóðarvá. Samkvæmt skilgreiningum í lögum um opinber fjármál er það forsendan fyrir því að það þurfi að endurskoða fjármálastefnu. Það er mælikvarðinn sem við erum að miða við og þessi tillaga er um hvernig eigi að laga það, hvernig eigi að koma í veg fyrir og laga það að hér sé efnahagsáfall eða þjóðarvá og stjórnarþingmenn halda sig utan við þingsalinn þegar á að ræða hvernig sú tillaga á að vera lagfæring á því ástandi.

Það finnst mér, virðulegur forseti, mjög skrýtið þannig að ég kalla aftur eftir, eins og aðrir hv. þingmenn hafa gert, að stjórnarþingmenn komi hingað og útskýri fyrir okkur af hverju þetta er lagfæring á því sem kallast efnahagsáfall eða þjóðarvá. Ég skil það ekki af því að það er ekki rökstutt. Ég er búinn að kalla eftir því margoft í þessum umræðum, það þarf (Forseti hringir.) að uppfylla ákveðin skilyrði til að taka upp efnahagsstefnuna. Það er búið að ákveða að gera það en ekki er búið að útskýra af hverju. Er í alvörunni þjóðarvá og efnahagsáfall eða ekki?