149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á því að þetta eigi að vera pólitík hverrar ríkisstjórnar fyrir sig, en við eigum að gera þá kröfu að hún setji sér stefnu og standi við hana. Ég greiddi atkvæði gegn 7. gr. í lögum um opinber fjármál, og 10. gr. er allt of þröng. Það er líka matsatriði hvað er efnahagsáfall og hvað er þjóðarvá. Fyrst við erum búin að setja svona lagað svona fast inn í lögin þyrfti að skilgreina nánar hvað þetta þýðir. Það er ekki gert. Ég held að það væri til heilla að taka upp umræðu um þessar greinar, 10. gr. og 7. gr., um fjármálareglurnar sem í sjálfu sér taka úr sambandi sveiflujöfnunarhlutverk ríkissjóðs og það mun alltaf leiða okkur í vanda. Það mun alltaf leiða yfir okkur (Forseti hringir.) slæmar ákvarðanir sem koma niður á almenningi.