149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Gildandi fjármálastefna byggði á mjög bjartsýnni hagspá sem var auðvitað búin til miðað við ákveðnar forsendur en jafnframt var tekið fram að þar væru ákveðnir veikleikar. Ef þeir myndu ekki raungerast yrði hagvöxtur upp á 14% út spátímabilið sem var mjög bjartsýnt og auðvitað var varað við því. Hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn hlustuðu ekki á þau varnaðarorð.

Nú erum við hv. þingmaður bæði í Suðurkjördæmi þar sem mikið er um ferðamennsku. Nánast allir erlendir ferðamenn sem koma til landsins fara um kjördæmið og þegar dregst saman í þeirri atvinnugrein hefur það sannarlega áhrif á kjördæmið okkar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að hagspáin sé í raun enn of bjartsýn og það þurfi í meðförum og í fjármálaáætlun að gera einmitt ráð fyrir því að leggja þurfi þeim lið sem fara illa út úr þessari niðursveiflu. Það eru sérstaklega þeir sem vinna við ferðaþjónustu og mörg fyrirtæki og síðan flugvallarstarfsmenn í okkar kjördæmi. Atvinnuleysi fer mjög vaxandi og er mest á Suðurnesjum núna og við vitum ekki hvað haustið ber í skauti sér.

Mun hv. þingmaður ekki leggja áherslu á að í vinnslu stefnunnar og áætlunarinnar, sem á eftir að koma til síðari umr., verði tekið þar á málum?