149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held einmitt að það sé nákvæmlega þannig, það sé stefnt að því en verið að fara í kringum það alveg eins og köttur í kringum heitan graut. Þegar maður les það gaumgæfilega aftur blasir þetta við þannig og það er m.a. út af þeim orðum í fjármálastefnunni sem ég sakna þess verulega, þess vegna erum við sem erum í stjórnarandstöðunni að kalla eftir umræðu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Eins og ég segi munum við örugglega klára þessa umræðu rétt bráðum eða kannski eftir tvo tíma, ég veit það ekki, en ég hefði viljað heyra af því að fyrir tveimur árum sagði núverandi forsætisráðherra: Fjármálastefna hverrar ríkisstjórnar er grundvallarplagg. Þetta grundvallarplagg er nú verið að beygja og sveigja eftir pólitískum hentugleika sem er stórhættulegt. Það er bara grundvallarumræða að taka þá nálgun. Ég hefði gjarnan viljað heyra viðhorf hæstv. forsætisráðherra af því að ég er ekki viss um að við myndum heyra sama viðhorf frá hæstv. forsætisráðherra varðandi niðurskurð og síðan frá hæstv. fjármálaráðherra. Getur verið að það sé kannski ástæðan fyrir fjarveru Vinstri grænna í umræðunni? Þetta eru erfiðar spurningar að svara af því að þetta er allt frekar loðið. Mig langar að fá viðbrögð hv. þingmanns varðandi það.

Mig langar einnig að fá aðeins að vita, af því að hv. þingmaður hefur reynslu af því innan úr fjárlaganefnd, um afgreiðslu á fjármálastefnunni: Hvernig sér hann gangverkið verða á næstu dögum með vinnslu á fjármálastefnunni? Hvernig mun þetta vinnast?