149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nýta þessa síðari ræðu mína í að fjalla um óvænta uppákomu sem blasir nú við ríkissjóði sem verður á bilinu 5–8 milljarðar kr. Þannig er mál með vexti að sl. föstudag féll í Landsrétti tímamótadómur, fordæmislaus dómur, sem dregur fram hvaða afleiðingar það getur haft þegar löggjafinn sýnir ekki nógu mikla vandvirkni við lagasetningu. Þarna verða þau atvik uppi að í janúar og febrúar 2017 var engin heimild fyrir Tryggingastofnun til að skerða greiðslur sínar vegna lífeyristekna lífeyrisþega úr lífeyrissjóði. Þetta eru miklir peningar og þetta eru peningar sem sýna hversu miklar skerðingar raunverulega eiga sér stað gagnvart lífeyrisþegum.

Ekki er komið í ljós hvort dómnum verður áfrýjað en þrátt fyrir það hefur hann vakið athygli, sérstaklega þeirra sem hafa lesið hann og skoðað og ég hef talað við, fyrir það hversu vel rökstuddur hann er og hversu vel hann hnykkir á því sem við viljum gjarnan kalla eftir í réttarríkinu, hversu vel hann tekur á því að afturvirk lög, íþyngjandi fyrir borgarann, séu óheimil og hversu vel hann verndar eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Þegar upp er staðið eru harla litlar líkur á því að háttvirtur Hæstiréttur Íslands geti með góðu móti snúið slíkum rökstuðningi sem þriggja manna skipaður dómur Landsréttar kvað upp á föstudaginn. Þess vegna segi ég að það gleður mig mjög að finna og sjá það réttaröryggi sem við erum að upplifa núna með nýjum Landsrétti. Þrátt fyrir að það hljóti að vera dapurlegt í þeirri stöðu þegar við erum að tala um niðursveiflu og að hér vanti aukna fjármuni og við veltum því eðlilega fyrir okkur og höfum gert hér í dag, og jafnvel margir sem hafa áhyggjur af því hver verði látinn taka skellinn, er dapurlegt að þurfa að horfast í augu við það að þarna erum við að bæta á brúsann 5 milljörðum, alveg örugglega, plús vexti, vaxtavexti og vexti líka af þeim frá 1. janúar 2017.

Þrátt fyrir þau áföll sem við erum að horfast í augu við, loðnubrest, fall WOW air og annað slíkt, geta alltaf komið upp svona tilvik eins og við erum að horfast í augu við núna, en góðu fréttirnar eru þær að þrátt fyrir þann vanda sem talað hefur verið um hér og við okkur blasir sagði hæstv. fjármálaráðherra í dag í ræðustólnum að enginn þyrfti að hafa áhyggjur af því að ekki væru til fjármunir til að greiða fyrir því ef kæmi að því að greiða út þá fjármuni sem dómurinn felur í sér.

Það er ekki þar með sagt að þetta sé það eina. Það er númer eitt, tvö og þrjú að löggjafinn vandi sig við það sem hann er að gera, að við stöndum okkur í stykkinu og hvað lýtur að nýrri fjármálagerð núna — í þeirri sem var á undan voru brostnar forsendur, þeirri sem er í gildi núna, og í rauninni má segja það sama með þessa. Það sem skortir algerlega í hana, alveg eins og þá fyrri, er að hvergi nokkurs staðar skuli vera gert ráð fyrir því, eins og ég hef ítrekað talað um, að leiðrétta kjör þeirra sem lægst hafa launin, kjör öryrkja og þeirra sem eru í almannatryggingakerfinu, þeirra sem voru skertir niður úr öllu valdi eftir hrun og hafa enn ekki fengið leiðréttingu, einir af öllum í samfélaginu sem ekki hafa fengið neina leiðréttingu.