149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

störf þingsins.

[10:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hagstofa Íslands birti í gær í fyrsta skipti tölur um hlutfall og áætlaðan fjölda ungmenna sem standa utan skólakerfis og vinnumarkaðar. Þar kemur ýmislegt áhugavert fram sem vert er að hafa í huga þegar við ræðum málefni ungs fólks.

Áætlað er að 6% ungmenna á aldrinum 16–24 ára hafi ekki verið í vinnu, námi eða starfsþjálfun á síðasta ári. Þetta eru u.þ.b. 2.400 ungmenni. Samkvæmt Alþjóðlegu vinnumarkaðsstofunni getur þessi hópur verið í áhættuhópi fyrir félagslega einangrun og skort á efnislegum gæðum vegna þess að hann aflar sér hvorki atvinnutekna né byggir upp færni sína með aukinni menntun eða þjálfun.

2.400 ungmenni virðist vera há tala og vissulega þarf að hafa auga með þessum hópi, veita honum ráðgjöf og þjónustu sem hann þarf á að halda. Samt sem áður er þetta hlutfall með því allra lægsta sem þekkist í Evrópu. Einungis tvö lönd í Evrópu eru með lægra hlutfall ungmenna sem ekki eru í námi, vinnu eða í starfsþjálfun.

Hlutfall þessa hóps er nú aftur orðið svipað því sem þekktist hér á árunum fyrir hrun. Hins vegar hefur bilið milli karla og kvenna án vinnu, náms eða starfsþjálfunar, aukist síðustu ár. Ýmsar ástæður gætu verið fyrir þessum mun samkvæmt Hagstofunni og enn og aftur er kynjamunurinn er hér á landi minni en annars staðar í Evrópu.

Virðulegi forseti. Það er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er aðili að, að lækka verulega hlutfall fólks á aldrinum 15–24 ára sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Við virðumst standa okkur ágætlega þar en við verðum að gæta þess að sofna ekki á verðinum þegar kemur að unga fólkinu okkar.