149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp um stjórn veiða á makríl. Með frumvarpinu er lagt til að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á makríl og að miðað verði við aflareynslu áranna 2008–2018, að báðum árum meðtöldum, en fram til þessa hefur stjórn veiða á stofninum lotið reglugerðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og leyfum frá Fiskistofu sem sett hafa verið til eins árs í senn. Frumvarpinu er m.a. ætlað að bregðast við dómum Hæstaréttar frá 6. desember 2018, svo sem nánar er rakið í greinargerð með frumvarpinu.

Nokkur gagnrýni kom fram á það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu og þá einna helst vegna mismunandi stöðu skipa eftir veiðarfærum og mikils munar á reynslu smærri og stærri útgerða sem miða á við í hinu nýja fyrirkomulagi. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að í frumvarpinu væri ekki brugðist með fullnægjandi hætti við dómum Hæstaréttar auk þess sem mjög myndi halla á smærri báta og þá sem frumkvæði hefðu haft að makrílveiðum, ósanngjarnt væri að þeir sem rutt hefðu brautina fengju ekki að njóta þess heldur væru festar í sessi reglur sem umbunuðu þeim sem á eftir hefðu komið. Fyrir nefndinni voru reifaðar nokkrar tillögur til að rétta af þann halla sem væri milli smærri og stærri útgerða. Meiri hlutinn telur mikilvægt að komið sé á einu skýru og fyrirsjáanlegu kerfi sem taki mið af því að styðja við fjölbreytileika í útgerð, jafnt í veiðum sem og vinnslu á makríl, hvort sem veitt er við strendur landsins eða á úthafsmiðum. Nauðsynlegt er að það fyrirkomulag sem lögfest verður tryggi sem best jafnræði og mismunandi útgerðarmynstur og rekstrargrundvöll þeirra báta sem veitt hafa makríl með línu og handfærum innan sama kerfis.

Leggur meiri hlutinn því til að skipum sem veiða makríl verði skipt í tvo flokka, A-flokk sem í eru skip sem veiða með öðrum veiðarfærum en handfærum og línu og B-flokk sem í eru skip sem veiða með handfærum og línu. Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þess efnis að við lögin bætist ný grein, 10. gr. b, sem kveði á um að ráðherra ráðstafi ár hvert 4.000 lestum af makríl til skipa í B-flokki, skipa sem stunda makrílveiðar með línu og handfærum. Eftir 15. september verði leyfilegt að ráðstafa því sem eftir er til skipa í A-flokki gegn gjaldi. Hvert skip á kost á að fá úthlutað allt að 35 lestum af makríl í senn gegn gjaldi sem á hverjum tíma nemi sömu fjárhæð og veiðigjald fyrir makríl.

Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd úthlutunar. Leggur meiri hlutinn áherslu á að úthlutun að öðru leyti en að framan greinir skuli vera í samræmi við þá úthlutun sem var í reglugerð nr. 762/2018. Af þessu leiðir að hin hefðbundna aflamarks-/krókaaflamarksskipting mun ekki gilda um veiðiheimildir í makríl heldur ræðst hún af A- og B-flokki.

Tímamarkið 15. september miðast við þann tíma sem veiðum með handfærum og línu er lokið og því eðlilegt að leyfa eftir það úthlutun ónýttra lesta til skipa í A-flokki sem nýta sér önnur veiðarfæri.

Samkvæmt framangreindum tillögum myndi skipting makrílafla í A- og B-flokk miða við úthlutun heildarafla árið 2018 vera eins og sjá má í töflu í nefndarálitinu. Í prósentum talið er í A-flokki 5,40% og í B-flokki 94,60%. Ég er hrædd um að þetta hafi eitthvað ruglast á milli. Ég skil þetta þannig að B-flokkur sé með 5,40 en A-flokkur með 94,60.

Með hliðsjón af framangreindum tillögum meiri hlutans leggur hann til þrjár viðbótarbreytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem eru tvíþættar. Annars vegar leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. mgr. 8. gr. laganna en þar er kveðið á um hvernig úthlutað aflamark er ákveðið. Samkvæmt ákvæðinu ræðst úthlutað aflamark af leyfðum heildarafla að frádregnu hlutfalli, 5,3%, af hverri tegund. Meiri hlutinn leggur til að auk 5,3% frádrags af heildarafla makríls skuli draga frá 4.000 lestir sem ætlaðar eru til úthlutunar til báta sem stunda veiðar með línu og handfærum. Úthlutaður afli í makríl verður því leyfilegur heildarafli að frádregnum 5,3% og fyrrnefndum 4.000 lestum af makríl sem ráðherra verður heimilt að ráðstafa. Meiri hlutinn áréttar að þessar 4.000 lestir af makríl falla ekki undir 5. og 6. mgr. 8. gr. laganna og verður eingöngu ráðstafað á þann hátt sem kveðið verður á um í nýrri 10. gr. b, samanber framangreint.

Nú verður þingmaðurinn að gera smáhlé á ræðu sinni því að einhver gufa kom á gleraugun. Hv. þingmaður sér ekki ofsjónir en sér ekki það sem hann ætlaði sér að lesa svo að ég vona að þingheimur og allir áhorfendur fyrirgefi hv. þingmanni þetta. — Þetta er aðeins skárra.

Þá er kveðið á um að í samræmi við að heimilt sé að ráðstafa fyrrnefndum 4.000 lestum eftir 15. september ár hvert til skipa í A-flokki verði ráðherra heimilt að flytja ónýtt aflamark í makríl úr B-flokki yfir í A-flokk eftir 15. september ár hvert, að teknu tilliti til tegundartilfærslna og flutningsréttar milli veiðitímabila, sem ráðstafað skal jafnt á skip með aflamark í A-flokki.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Hv. þm. Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Ólafur Ísleifsson skrifar undir álitið með fyrirvara. Jón Þór Þorvaldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með fyrirvara í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Undir álitið rita sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Jón Þór Þorvaldsson, með fyrirvara, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson og Ólafur Ísleifsson, með fyrirvara.

Svo er málum háttað að nefndin kom aftur saman áður en málið fór í 2. umr. og sendi frá sér framhaldsnefndarálit með breytingartillögum frá meiri hluta atvinnuveganefndar sem ég mun kynna fyrir þingheimi öllum. Þær hljóða svo:

„Nefndin hefur fjallað frekar um málið og leggur meiri hlutinn til að 35 lesta hámark við úthlutun úr 4.000 lestum verði fellt brott þannig að ráðherra verði frjálst að ákveða hverju sinni með reglugerð skilyrði fyrir úthlutun á þeim 4.000 tonnum sem heimilt verður að leigja sérstaklega til veiðiskipa. Meiri hlutinn bendir á að mikil reynsla er komin á slíka úthlutun og telur því þarflaust að setja sérstök skilyrði um hana í lög, enda gert ráð fyrir að framkvæmd verði með sambærilegum hætti og verið hefur.

Meiri hlutinn telur rétt að gjald verði tekið af ráðstöfun aflamarks úr B-flokki yfir í A-flokk og leggur því til breytingu þess efnis. Þá leggur meiri hlutinn jafnframt til að ráðherra verði veitt heimild til að miða við annað tímamark en 15. september í þessu tilliti til þess að bregðast við aðstæðum hverju sinni (fiskgengd).“

Getur það átt við bæði fyrr og fram í tímann. Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt með breytingum sem tilgreindar eru í skjalinu. Ég vísa þá til þess þar sem farið er lið fyrir lið í þessu skjali yfir þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði miðað við það efnislega sem var lesið upp hér á undan. Hið sama á við um þær breytingartillögur sem lágu fyrir áður og fylgdu því nefndaráliti sem áður var kynnt hér, ég vísa í þær breytingartillögur sem er búið að fara efnislega yfir í nefndaráliti af hálfu framsögumanns sem hér stendur.

Ég vil í framhaldi af þessu aðeins ræða hvaða breytingar á málinu ég tel mikilvægar. Ég talaði í upphafi um að ég gæti að óbreyttu ekki fallist á málið eins og það lá fyrir og ég fékk þann skilning að fleiri væru á þeirri skoðun að við þyrftum að mæta þeim útgerðum sem hafa veitt makríl á handfæri og línu og líka að verja það að með þessari úthlutun tökum við ekki þá áhættu að hægt verði að framselja úr því kerfi sem eru veiðarfæri með línu og handfæri til þessara stærstu útgerða og að menn stæðu frammi fyrir því einn daginn að eiginlega væri ekkert eftir af aflaheimildum fyrir línu- og handfærabáta, að það væri búið að framselja það frá sér og kerfið liti þá þannig út að menn hefðu ekki heimildir til að veiða með línu og handfærum við strendur landsins sem þessi stærstu hafa engin tök á að veiða og að við værum þá að missa frá okkur mikil verðmæti með því. Þess vegna var horft til þess að skipta heimildunum upp miðað við veiðarfæri. Í B-flokki sem eru handfæri og lína geta lent bátar sem eru núna í krókaaflamarkskerfinu en líka bátar sem eru í aflamarkskerfinu ef þeir nota þessi veiðarfæri. Og í A-flokki eru þá þessir stærstu sem eru á úthafsveiðum á makríl.

Ég held að heilt yfir hafi verið mikil óánægja hjá þeim aðilum sem þarna eiga í hlut með viðmiðunarár og þá sérstaklega þeim sem byrjuðu veiðar seinna, ekki fyrr en upp úr 2012 eða 2013 að neinu gagni. Aðrir frumkvöðlar í úthafsveiðum byrjuðu miklu fyrr, 2007 eða 2008. Þeir sem byrjuðu þetta miklu seinna fengju þá ekki viðmiðun sem væri miðuð við þeirra raunverulegu veiðireynslu. Það var skoðað með hvaða hætti væri hægt að hreyfa við því en það þótti eðlilegt að allir sætu við sama borð og áfram er viðmiðunartímabilið að velja 10 bestu árin af 11.

Meiri hluti nefndarinnar lagði mikla áherslu á, og fékk til þess stuðning frá fleirum, að þeim bátum sem væru á veiðum með línu og handfæri væri gerður öflugur pottur sem væri hægt að leigja úr. Í frumvarpinu er enginn slíkur pottur. Hann hefur verið áður eins og þetta hefur verið stundað í gegnum árin og nú er kominn 4.000 tonna pottur sem þessir aðilar geta leigt úr ef þeir vilja bæta við sig miðað við þær aflaheimildir sem þeir fá við þessa hlutdeildarsetningu. Þeir leigja þá úr þeim potti á sama verði og veiðigjaldið er í makríl hverju sinni. Til að menn brenni ekki inni með þær aflaheimildir geta þeir stærstu fengið þeim úthlutað til sín þegar veiðum lýkur á línu og handfæri, ef það skyldi ekki klárast úr þessum potti, en þá gegn gjaldi. Hið sama á við um aflamark innan ársins, ef það gengur ekki út geta þeir stærstu fengið það leigt til sín þegar línu- og handfæraveiðum lýkur við strendur landsins.

Enn er samt boðið upp á að á milli þessara tveggja kerfa sem eru í raun og veru eldveggur fyrir framsal, það er ekki hægt að framselja upp í stóra kerfið úr línu og handfærum, geti menn innan ársins verið með tegundartilfærslu og geti þá, ef þeir stærstu vilja skipta, tekið til sín makríl. Þeir í hinu kerfinu, B-kerfinu, geta í staðinn fengið til sín eitthvað af þeim fjórum bolfiskstegundum sem eru í boði, þorski, ýsu, ufsa eða steinbít. Þeir hafa í gegnum árin skipt svona í tegundartilfærslu og það verður heimilað áfram sem ég held að sé mjög jákvætt.

Í raun erum við að styðja við það að áfram verði öflug útgerð á makríl við strendur landsins með því að banna framsal úr því kerfi upp í það stóra.

Svo má endalaust deila um hvernig að þessu er staðið. Þessu hefur verið ráðstafað í gegnum árin með reglugerð, ekki með lögum. Nú eru liðin allmörg ár frá því að makríllinn kom að ströndum landsins. Til að byrja með lá kannski ekki alveg fyrir hvort þetta yrði stofn sem væri kominn til að vera eða ekki og við getum svo sem búist við því, þó að ég sé ekki að spá því, að makríllinn hverfi úr lögsögu okkar og þá ráðum við engu um það. Þeir sem hófu veiðar voru auðvitað frumkvöðlar í að afla okkur réttinda, en enn sem komið er hafa ekki náðst neinir samningar á milli þeirra þjóða sem hafa verið á þessum veiðum, Noregs, Færeyja, Grænlands og Íslands. Við erum ekki búin að ná neinum samningum okkar á milli um skiptingu heildarafla. Það er bara ákveðið hér af okkar ráðamönnum hvað það verður hverju sinni. Núna minnir mig að það séu 132.000 tonn. Við vonum það besta, að makríllinn verði áfram veiðanlegur í landhelginni okkar.

Það má vel halda því til haga að enginn af þeim sem fá núna hlutdeildarsetningu hefur þurft að borga fyrir makrílinn. Það er eðlilegt að menn greiði núna veiðigjald og að það sé ekki sjálfgefinn hlutur að menn fái úthlutað heimildum til að selja þær varanlega til þeirra stærstu og að smátt og smátt hverfi þessar heimildir úr því kerfi sem er verið að veiða eftir við strendur landsins. Fyrir það tel ég að við séum búin að girða með breytingum á þessu máli.

Ég læt þetta gott heita og vona að frumvarpið verði samþykkt sem fyrst því að makríllinn er að fara að verða veiðanlegur við landið. Fallið hefur hæstaréttardómur um að löggjafinn verði að stjórna þessum veiðum með lögum, ekki með reglugerð. Það er ekki eftir neinu að bíða. Eflaust eru ekkert allir sáttir en það er með þetta í lífinu eins og margt annað að menn verða að ná einhverri niðurstöðu þvert á sjónarmið og flokka. Ég tel búið að mæta ýmsu sem a.m.k. ég sem þingmaður Vinstri grænna hef lagt mikla áherslu á varðandi það að styðja við fjölbreytni í útgerðarformi og styðja við litlar og meðalstórar útgerðir sem hafa vissulega verið í mikilli samkeppni við þá stærstu um aflaheimildir.