149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[16:07]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að hafa örfá orð um það frumvarp og þær breytingartillögur sem hér eru til umræðu. Það verður að segjast eins og er að fá mál hafa verið jafn erfið og flókin í atvinnuveganefnd frá því að ég kom inn í nefndina 2013. Sjónarmið aðila áttu í rauninni greiðan aðgang að huga manns og hjarta þegar maður var að ræða þessi mál, bæði frumkvöðlanna sem hófu veiðarnar á sínum tíma, lögðu skip og veiðarfæri undir og voru í rauninni voru algjörir frumkvöðlar að þessum veiðum á Íslandi, og síðan þeirra sem síðar komu inn í veiðarnar og þurftu að gera sér að góðu að viðmiðunarárin væru langtum fleiri en þeir höfðu nokkurn tíma staðið að veiðum, eins og hjá flestum smábátum. Það er líka mjög erfitt að kyngja því að mörgum þeim sem unnu eftir þeim reglum sem gilda um veiðar í íslenskri landhelgi þar sem leiga á aflaheimildum er heimil og höfðu leigt aflaheimildir í makríl á tímabilinu, runnu þær heimildir úr greipum og þær í vasa þeirra sem leigðu heimildirnar. Þetta er auðvitað ekki samkvæmt þeim reglum sem hafa gilt um veiðar í íslenskri landhelgi.

Ég segi þó að þessi niðurstaða hér, þótt hún sé trúlega öllum sem stunda makrílveiðar mjög á móti skapi, jafnvel óásættanleg, er þó niðurstaða sem við í nefndinni höfum komist að eftir að hafa reynt mjög margar leiðir til þess að vera eins réttlát og nokkur kostur var. Okkur var mikill vandi á höndum við að hlusta á færustu lögfræðinga þjóðarinnar koma fyrir nefndina og tala máli stórútgerðarinnar, sem eðlilega sótti sinn rétt, og eins að gæta hagsmuna þeirra sem minni voru og okkur fannst líka eiga sinn rétt. Allir áttu sinn rétt.

Því varð að niðurstöðu meiri hlutans það nefndarálit sem hér hefur verið kynnt. Við það stend ég en vildi samt sem áður segja þessi orð, bara til að við í þinginu og þeir sem á okkur hlusta átti sig á því að okkur var gríðarlega mikill vandi á höndum.

Síðan eru hérna nokkrar breytingartillögur sem fylgja þessu frumvarpi sem meiri hlutinn leggur fram og ég styð heils hugar.