149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir þessi ræða hjá hv. þingmanni koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í þessa umræðu, inn í þá góðu vinnu sem hefur verið í atvinnuveganefnd mjög lengi í þessu stóra og mikla hagsmunamáli, að byggja upp fiskeldi til framtíðar með nýrri löggjöf og horfa til umhverfissjónarmiða og líka til þess að vernda villta laxastofna landsins. Mér þykja ummæli hv. þingmanns bera vott um að hann sé ekkert inni í þessum málum. Við erum að setja almenna löggjöf, ekki löggjöf sniðna að einstaka fyrirtækjum. Ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um að löggjöf eigi að miðast almennt við lagaumhverfi þeirra sem hún á að ná til en ekki með einhverjum krúsindúllum til að mæta einstaka fyrirtækjum sem lobbíast á Alþingi.

Við erum búin að vinna mjög þétt saman að því að greina hvaða leið væri hægt að fara til að mæta því að hafa skýr lagaskil á milli gömlu laganna og þeirra nýju sem við erum að setja hér. Væntanlega vill hv. þingmaður að einhverjir vinni eftir þessum nýju lögum sem við erum búin að vinna svo lengi að. Það er ekki einhver endastöð ef menn komast ekki inn með umsóknir á grundvelli gömlu laganna. Það er framtíð eftir það fyrir öll fiskeldisfyrirtæki.

Hvað sér hv. þingmaður að því að farin sé frummatsskýrsluleið þar sem menn eru komnir næstum því á endastöð í umsóknarferlinu? Við fórum þá leið frekar en að taka matsskýrsluleiðina sem er enn þrengri. Við víkkuðum þetta og fengum þær upplýsingar hjá Skipulagsstofnun að það væru mjög skýr lagaskil að miða við móttöku á frummatsskýrslu. (Forseti hringir.) Eins og tillaga hv. þingmanns lítur út eru menn á byrjunarreit í tillögu að matsáætlun til að þóknast einhverjum ákveðnum fyrirtækjum og við höfum aldrei horft til þess hvaða fyrirtæki eru þar undir, kennitölur eða landshlutar.