149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það hefur afskaplega lítið nýtt komið fram í umræðunni í dag, efnislega um málið. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði reyndar í fréttum og hefur sagt það hér líka að eitt hafi nýtt gerst síðan í sumar og það sé að Evrópusambandið eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi ákveðið að kæra Belgíu vegna þriðja orkupakkans. Þá er því þyrlað upp sem: Hah, sjáiði bara. Framkvæmdastjórnin gæti kært land fyrir brot á þriðja orkupakkanum.

Svarið við þessari stórfurðulegu uppgötvun hv. þingmanns og hans hv. flokks er: Að sjálfsögðu er hægt að kæra fyrir brot á samkomulagi. En það sem hv. þingmaður virðist ekki átta sig á, eða hans ágæti flokkur, er að hér er einfaldlega ekki verið að samþykkja lagningu sæstrengs. Það er alveg augljóst af ræðunum, það er augljóst af skjölunum, það er augljóst af því að lesa orkupakkann sjálfan — einu aðilarnir á þinginu sem virðast telja eitthvað til í því að hér sé á einhvern hátt, með óbeinum hætti og hugsanlega í framtíðinni í gegnum einhver kæruhöld, verið að samþykkja sæstreng eru hv. þingmenn Miðflokksins og enginn annar. Ef gluggað væri í lögskýringargögnin, sem eru væntanlega orðin frekar viðamikil, held ég að ekki myndi nokkur maður sjá það út úr samþykkt þriðja orkupakkans á Íslandi að við værum að samþykkja sæstreng.

Hins vegar felur þriðji orkupakkinn í sér ýmis ákvæði, sem Belgía samþykkti, sem fyrir liggur núna að samþykkja, framkvæma og innleiða hér. Þegar einhver ákveður að semja við annan aðila um eitthvað á auðvitað að standa við þá samninga, annars er kært. Eðlilega.

Það eina sem er í þessum fréttum, þ.e. að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi kært Belgíu fyrir brot á þriðja orkupakkanum, er einfaldlega það að Belgía samþykkti að gera eitthvað sem Belgía gerði síðan ekki. Það sem meira er að Belgía samþykkti það sérstaklega að ef sú staða kæmi upp þá gæti framkvæmdastjórn ESB kært Belgíu fyrir það. Það eina sem er í fréttum er að, jú, til er fyrirbæri sem heitir framkvæmdastjórn ESB, og þegar þjóðríki samþykkja þjóðréttarlegar skuldbindingar er þeim vissulega gert að fylgja þeim samþykktum sem þau sömu þjóðríki hafa samþykkt. Það eru engar fréttir, virðulegi forseti.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að þetta er í raun og veru það eina sem ég hef heyrt nýtt í sumar. Allt sumarið leið og ég tók meira að segja undir með hv. þingmönnum Miðflokksins á sínum tíma að kannski ættum við að fresta málinu til haustsins þannig að fólk gæti skoðað það betur. Nú er búið að skoða það betur. Hvað fengum við út úr því? Jú, það er víst til framkvæmdastjórn ESB, ókei, búið er að komast að því. Og þriðji orkupakkinn er víst í gildi í Evrópusambandinu, við höfum komist að því líka. Og til er land sem heitir Belgía og Belgía var búin að samþykkja þriðja orkupakkann en uppfyllti ekki skuldbindingar sínar og var kært fyrir það af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þetta eru fréttirnar. Þetta eru nýju gögnin. Þetta eru nýju sönnunargögnin frá Miðflokknum. Þetta er hlægilegt, virðulegi forseti. Þetta er hlægilegt.

Ég held að almenningur sem hefur fylgst með hafi kannski tekið eftir því að bæði stjórnarliðar og sumir stjórnarandstöðuliðar hafi orðið svolítið pirraðir hérna í pontu við að ræða þetta og telji kannski að þær tilfinningar komi út frá því að vera eitthvað sérstaklega annt um málið. Ég held að það sé ekki málið. Ég held að fólki sé bara svolítið eðlislægt að verða svolítið pirrað að þurfa að endurtaka sig aftur og aftur og hlusta á sömu rökleysuna aftur og aftur og horfa á fólk og vinna með fólki sem kemur hingað og reynir sífellt að matreiða þessa vitleysu ofan í aðra þingmenn. Þeir vita mætavel hvað þetta er mikil vitleysa. Það er frekar pirrandi.

Ég verð að þakka þingheimi fyrir að sýna þá stillingu sem hann hefur sýnt, sér í lagi nefndum þingsins sem hafa sýnt mikla stillingu við að sitja undir þeim fráleita málflutningi, sem núna heldur áfram. Mér fannst rétt að minnast á þetta Belgíumál vegna þess að það er svo mikið skólabókardæmi um hvaða vitleysa er í gangi hérna.

Ég skil mætavel, af því að við erum að tala um innleiðingar á reglugerðum og tveggja stoða kerfi og alls konar slíka hluti, að hinn almenni borgari finni eitthvað í rökstuðningi og málflutningi Miðflokksins sem væri þess virði að hafa áhyggjur af og skoða betur, eða eitthvað því um líkt. Ég skil það og ber fulla virðingu fyrir því. En við þingmenn, sem höfum skoðað málið og vitum um hvað þetta snýst og sjáum auðveldlega í gegnum þennan fráleita málflutning, sjáum alveg hvað er í gangi. Þetta er blekking, virðulegi forseti. Þetta er blekkingaleikur af hálfu Miðflokksins. Hann er óheiðarlegur og hann er til skammar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)