150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega þakklát fyrir þessa þingsályktunartillögu og stolt af henni. Flokkur fólksins hefur einbeitt sér mjög að málefnum aldraðra, öryrkja og láglaunafólks. Þau eru okkur hjartans mál. Ég býst við að það hafi ekki farið fram hjá neinum. Hvað lýtur að þingsályktunartillögunni kviknaði hugmyndin að henni eftir að maður las í fjölmiðlum og heyrði viðtöl við bæði aðstandendur og heilbrigðisstarfsmenn um mjög bága og erfiða stöðu víðast hvar, því miður. Við heyrum sögur af því að jafnvel sambúðarmökum er stíað í sundur, hafa búið saman og verið gift og átt líf saman alla tíð og annar veikist og neyðarúrræðið er að hann verður að fara á hjúkrunarrými eða eitthvað slíkt, en aftur á móti situr hinn eftir einn heima og hefur ekki möguleika á því að búa lengur með maka sínum. Þetta hefur gengið það langt að einstaklingur búsettur á Suðurlandinu hefur verið sendur til Húsavíkur vegna þess að það var ekki pláss fyrir hann neins staðar hér þannig að það var orðið ansi langt á milli makanna og erfitt að heimsækja ástina sína fleiri hundruð kílómetra norður í land.

En hvað um það. Allt sem við erum að ganga í gegnum hér og nú er mannanna verk. Allt það kerfi sem við byggjum upp hér og nú er eðli málsins samkvæmt mannanna verk. Það að þurfa að gangast undir færni- og heilsumat sem tekur iðulega meira en þrjá mánuði er algerlega óviðunandi. Sem dæmi var ég norður í Ólafsfirði á dögunum að aðstoða við að fylla út pappíra þar sem einstaklingur var að sækja um að komast inn á dvalarheimili. Svarið var að þeir aðilar sem fjölluðu um þau mál væru í sumarfríi og kæmu ekki saman, var sagt þarna í júní, fyrr en í ágúst. Einu sinni, kannski tvisvar í mánuði væri þetta tekið fyrir á fundum. Ég veit ekki alveg hvernig kerfi er hugsað sem er orðið svo kerfislægt að engu skiptir þótt viðkomandi geti ekki lengur komist í bað, þótt viðkomandi búi aleinn og það viti það allir í samfélaginu, þótt hann sé félagslega einangraður, þótt hann nánast svelti, ef það á að vera þannig að einhverjir kerfiskarlar eða eitthvert kerfi eigi að taka marga mánuði í að ákveða hvort við eigum að grípa inn í sem samfélag og halda utan um mál þessa einstaklings. Mér finnst vægast sagt dapurt að hlusta á öldrunarlækninn hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson sem virkilega heldur það að með því að grípa inn í og forgangsraða í þágu fólksins eftir því hversu veikt það er eða hversu einangrað það er megi leggja að jöfnu við að mismuna sjúklingum, mismuna fólki sem þarf á hjálpinni að halda. Hvernig er það þegar við förum niður á bráðadeild? Við erum flokkuð niður í eitt, tvö, þrjú, fjögur eftir því hvort við erum að detta niður úr hjartaáfalli eða höfum snúið okkur á tá. Við erum flokkuð þar. Við þurfum að bíða — mislengi. Vá, hvað okkur er mismunað þar.

Hér erum við ekki að tala um mismunun, engan veginn. Við erum að tala um þörf, brýna þörf og nauðsyn. Við gætum virkilega gripið inn í fyrr, skilvirkar og betur en við gerum. Mér finnst líka dapurt þegar látið er í veðri vaka að það yrði einhver hagsmunavinavæðing á því hvernig einstaklingar fengju úrlausn sinna mála ef þeir fengju aðgang að heilbrigðisstofnunum eða hjúkrunarheimilum. Mér finnst bara dapurt að fara með umræðuna niður á þetta plan vegna þess að það er engan veginn það sem er verið að tala um hér og nú. Mér finnst hins vegar mjög jákvætt að verið sé að byggja upp hjúkrunarheimili eins og verið er að gera. Mjög jákvætt. En það er ekki jákvætt ef við stöndum uppi með þau ónýtt þannig að glæsilegt hjúkrunarheimili kalli á að fá að taka við einstaklingum sem þurfa að komast í slíkt úrræði en ekki er til mannskapur. Það er ekki hægt að manna stöður inni á slíku heimili, samanber á Seltjarnarnesi þar sem helmingurinn af rýmunum var enn ónýttur í byrjun sumars. Ég skal viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég hef ekki skoðað það nákvæmlega hversu mörg rými eru ónýtt í dag og hvernig hafi gengið að manna stöðurnar en það dapra núna er, með þeim aðhaldsaðgerðum sem er verið að boða hvað lýtur að Landspítala – háskólasjúkrahúsi og niðurskurðarkröfum sem gerðar eru upp á 3,5 milljarða kr., að þetta bitnar á sjúklingum. Það segir sig algjörlega sjálft, enda kom í ljós þegar fulltrúar Landspítalans mættu fyrir hv. fjárlaganefnd á dögunum að eitt af því sem á að skera niður er t.d. að brenna fyrir í sambandi við hjartaaðgerðir. Biðlistinn lengist bara hjá sjúklingum sem þurfa virkilega á því að halda. Við vitum hvað biðlistinn er langur. Við vitum um fráflæðisvanda á Landspítala – háskólasjúkrahúsi þar sem aldraðir liggja unnvörpum svo að heilbrigðisstarfsmenn á sjúkrahúsunum fórna höndum. Rúmin eru öll full. Þetta eru langdýrustu úrræðin. Það kom í ljós þegar okkur var tjáð af heilbrigðisráðuneytinu sjálfu að eitt svona rými kostaði jafn mikið og að fá t.d. hjúkrunarfræðing sjö sinnum í viku til að heimsækja einstakling í sjálfstæðri búsetu.

Það sem þessi þingsályktunartillaga gerir er einfaldlega að reyna að bregðast við vanda fljótt og örugglega og ég á voðalega bágt með að skilja virkilega ef hv. þingheimur sér ekki ástæðu til þess að taka við henni. Í þessu tilviki er lagt til að það sé ráðherra sem taki hana í fangið, ríkisstjórnin. Þingheimur hlýtur að geta útfært hana þannig að allir geti vel við unað og um leið verði því markmiði náð sem að er stefnt með tillögunni. Það sem ég ætlaði að tala um áðan í sambandi við hvers vegna ekki sé kostnaðargreining og kostnaðar- hitt og þetta er að þetta er einfaldlega þingsályktunartillaga en ekki frumvarp. Hefðum við verið að leggja fram frumvarp til laga í þeim efnum hlytum við eðli málsins samkvæmt að hafa orðið að sýna fram á betri og nákvæmari útreikninga í allar áttir en þingsályktunatillaga gerir kröfur um. Ég er mjög ánægð með hana og þakklát öllum þeim sem að málinu komu með okkur og veittu okkur innsýn í líf sitt, bæði Félagi eldri borgara, fulltrúum eldri borgara, öldungaráði Flokks fólksins, formanni öldrunarþjónustunnar í Hafnarfirði og fleirum, mjög margir aðilar sem eru búnir að lifa og hrærast innan um roskið fólk og hafa horft upp á það missa heilsuna, lenda í vanda og vera allar bjargir bannaðar og fólk hreinlega veit ekki hvað til bragðs á að taka. Það er fyrir þetta fólk sem þessi þingsályktunartillaga er fyrst og síðast sett fram.

Ég hef í rauninni litlu við að bæta. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði að hann tryði því fullkomlega að það væri af góðum hug og góðum vilja sem Flokkur fólksins legði fram þessa þingsályktunartillögu og það er rétt hjá honum. Það er af góðum hug og góðum vilja sem við gerum það.