150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

kjör öryrkja.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræddi hér sérstaklega kjör öryrkja. Ég fór yfir nokkrar af þeim aðgerðum sem núverandi ríkisstjórn hefur gripið til til að bæta þau kjör og þær eiga ekki allar við um alla þá sem eru með lágar tekjur; ekki þegar kemur að greiðsluþátttökunni, svo að dæmi sé tekið, ekki þegar kemur að því að draga úr skerðingum, svo að dæmi sé tekið. Það breytir því hins vegar ekki að verkefninu er ekki lokið. Samkvæmt hefðinni, samkvæmt lögunum, er ýmist vísað í neysluvísitölu eða launavísitölu sem hv. þingmaður vísar hér til. Verkefninu er auðvitað ekki lokið. Mikið var gert til þess á sínum tíma, þegar kerfisbreyting fyrir aldraða var færð í lög árið 2016, að örorkulífeyrisþegar og aldraðir færu inn í sama kerfi. Það gekk ekki eftir. Nú hefur starfshópur á vegum hæstv. félags- og barnamálaráðherra skilað af sér ákveðnum sviðsmyndum í þeim málum og að sjálfsögðu er sú kerfisbreyting öll eftir þar sem við færum örorkulífeyriskerfið í betra horf en það er í í dag. Það er auðvitað næsta forgangsverkefni, myndi ég segja.