150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[15:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og tek undir það sem hún sagði. Ég tel að hér sé á ferðinni býsna mikilvægt mál sem geti orðið til töluverðra heilla. Eins og ráðherranum er vafalítið kunnugt kom málið hingað til umfjöllunar síðastliðið vor en ekki auðnaðist að klára það í hv. nefnd. Hluti ástæðanna fyrir því að það kláraðist ekki lá í því að menn reifuðu áhyggjur af stöðu íþróttafélaga sem almannaheillafélaga og hins vegar til að mynda nemendafélaga í framhaldsskólum og annarra slíkra með tilliti til frumvarpsins og hvort þau gætu talist þar undir.

Nú veit ég að töluverðar umræður hafa farið fram í millitíðinni um þetta. Mig langaði aðeins að inna ráðherrann eftir því hvort hún teldi tryggt að frumvarpið skerti á engan hátt möguleika þessara félaga á að vera áfram skráð sem almannaheillafélög, þá sérstaklega hvað snýr að aldri stjórnarmanna og starfsemi félaganna.