150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

sviðslistir.

276. mál
[16:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að heyra að hæstv. ráðherra hefur áhuga á að bæta aðgengi og kannski þyrfti að skoða einhver kort sem fólk fengi til að sækja slíka viðburði. Það má líka nefna að þegar Þjóðleikhúsið kemur vestur á firði er óskað eftir því af þeirra hálfu að sveitarfélögin borgi fyrir gistingu og uppihald. Það þarf að vinna betur að því að gæta jafnræðis.

Af því að hæstv. ráðherra talar um söfnin, myndlistarsöfnin, sem eru okkur ofboðslega dýrmæt langar mig að spyrja hana eins. Í næstu viku kemur mál frá mér sem ég hef nokkrum sinnum flutt um en almenna myndlistarkennslu í landinu þar sem í rauninni er horft á það að börn og unglingar alls staðar eigi þess kost að sinna því. Það er myndlistarfólk starfandi í hverju einasta bæjarfélagi í landinu. Það væri auðvelt að koma því við. Ég bendi á það að myndlistarnám er ekki bara grunnur fyrir fólk sem ætlar að vera myndlistarfólk heldur er þetta grunnur fyrir allar sjónlistir, hvort sem menn ætla að læra byggingarlist, fatahönnun, ljósmyndun eða grafíska hönnun þannig að þetta eru auðvitað rannsóknarstörf og undirstöðunám til handa þessu fólki. Get ég vænst stuðnings af ráðherra þegar þetta mál verður flutt? Ég spyr hana í leiðinni hvort gerður hefur verið einhver samanburður á aðkomu ríkisins og stuðningi þess með tilliti til mismunandi listgreina, bæði til náms og einnig stofnana sem eru rjóminn og berin á tertunni. Það þurfa að vera til staðar öflugar stofnanir eins og söfn, Þjóðleikhús og guð má vita hvað þetta heitir allt. (Gripið fram í.)