150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grunnskólar.

230. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum en ég er ekki sammála honum um að mótorhjól geti verið nauðsynlegt námsgagn. Hins vegar getum við staðið frammi fyrir því að við þurfum að leysa málefni ólíkra aðila með ólíkum hætti. Það er sannarlega þannig. En hér erum við að tala almennt. Við erum að tala fyrir heildina, um það hvað séu nauðsynleg námsgögn. Þegar við erum að kenna heimilisfræði þarf sannarlega að leggja til mat. Alveg eins og skólinn þarf að kaupa bækur til að kenna ensku eða til að kenna íslensku er þetta líka partur af þeim námsgögnum sem þar eru undir, hvort sem það er, eins og hv. þingmaður nefndi, timbrið í smíðinni eða maturinn í heimilisfræðinni. Við erum hér að tala fyrir heildina og hér eru örfá sveitarfélög eftir, eins og ég sagði áðan, og ekki einu sinni öll þeirra halda úti skóla. Sveitarfélögin hafa sem betur fer tekið þetta inn til sín. Við eigum bara að vera ánægð með það sem hefur orðið raunin, að sveitarfélögin vilja búa vel að unga fólkinu sínu. Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að spjaldtölvur eru afskaplega góð tæki í vinnu í skóla og hef mikið talað fyrir slíku. En ef við ætlum að kenna með þeim hætti verður það að mínu mati að vera skólans að sjá til þess að slík dýr námsgögn séu til staðar. Ég vildi sannarlega óska þess að þetta næði fram að ganga til að þeir verði úr sögunni, þessir fáu nemendur sem búa við það ójafnræði enn þá að þurfa að kaupa og greiða fyrir námsgögn umfram hina.