150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

veggjöld.

[10:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég gæti spurt hv. þingmann á móti: Hvaða hringlandaháttur er það í meiri hluta sveitarstjórnarinnar í Reykjavíkurhreppi, og hv. þingmaður er í sama flokki og það fólk, sem hefur verið tilbúinn í að fara í miklar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og gera samkomulag við ríkið, (Gripið fram í.) m.a. um að fá tæki til að stýra umferð, til að minnka umferð, sem eru tillögur borgarfulltrúanna en ekki ríkisins? Og síðan kemur hv. þingmaður upp og spyr hvaða hringlandaháttur sé gangi. Við erum einfaldlega að vinna að risastóru verkefni. Við höfum í allt of langan tíma sett allt of litla fjármuni í samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu en líka víða úti um land. Það hefur líka orðið sprenging í umferð, 26.000 bílaleigubílar sem aka um 20% af þeim kílómetrum sem eru eknir í landinu. Við erum að takast á við þann vanda.

Ég hef ekki skipt um skoðun. Það stóð ekkert í stjórnarsáttmálanum um vegtolla sem ætti að byggja allar samgöngur á og ég er ekki að leggja slíkt fram. Var einhver í þessum sal, þar á meðal sá sem hér stendur, á móti Hvalfjarðargöngunum? Nei, ég var það ekki. Það voru reyndar 70% þjóðarinnar á móti þeim á sínum tíma. En er einhver í dag á móti slíkri framkvæmd? Ég held ekki.

Ég kem hér með sex tillögur að slíkum verkefnum, til að flýta þeim verkefnum og taka fyrir það gjald. Ég bakka það upp í samkomulagi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, að fara inn í og leysa stórkostlegan vanda sem hér er, m.a. með því að taka gjald, vegna þess að það er þeirra ósk og þar á meðal væntanlega flokks hv. þingmanns. Þegar hann kemur upp og talar um hringlandahátt verð ég bara að senda þá spurningu til baka.

Hitt er hins vegar augljóst, hv. þingmaður, að við erum í miðjum breytingum vegna loftslagsaðgerða, við erum í orkuskiptum í samgöngum sem er stefna ríkisstjórnar og stendur í stjórnarsáttmálanum og það hefur verið unnið að því að breyta gjaldtökukerfinu vegna umferðar og ökutækja í landinu. Það ætlum við að halda áfram með.